Grátbiðja um aðstoð

AFP

Borgarstjóri New York-borgar, Bill de Blasio, greip til þess örþrifaráðs í dag að senda út neyðarkall til borgarbúa: „Allir sem ekki eru nú þegar í þessari baráttu, við þurfum á ykkur að halda,“ sagði í skilaboðunum sem send voru út á 8,6 milljónir íbúa borgarinnar.

AFP

Blasio segir að það vanti starfsfólk á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Í New York-borg eru 63.306 staðfest smit og af þeim hafa 2.624 látist. 

AFP

New York er það ríki Bandaríkjanna þar sem flestir hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni. Alls eru 3.565 látnir og ekkert lát virðist vera á fjölgun þeirra sem greinast með veiruna. Á sama tíma og starfsfólk sjúkrahúsa hefur vart undan að taka á móti sjúklingum er unnið hörðum höndum að því að undirbúa komu fleiri sjúklinga þangað. 

AFP

Andrew Cuomo ríkisstjóri varar fólk við því að þetta eigi enn eftir að versna. Hann segir að innan fjögurra til 14 daga verði væntanlega toppnum náð en á sama tíma séu sjúkrahúsin ekki nægjanlega undir það búin að taka við miklu fleiri sjúklingum. „Hluti af mér væri til í að þetta væri að ná hámarki og hugsa: látum okkur hafa það, en annar hluti segir að það sé eins gott að við erum ekki komin að hámarkinu þar sem við erum ekki reiðubúin,“ segir Cuomo. 

AFP

Alls létust 630 í New York-ríki síðasta sólarhringinn og hafa aldrei verið svo margir á einum sólarhring. Í ríkinu eru staðfest smit orðin rúmlega 113 þúsund sem er nánast sami fjöldi og á allri Ítalíu. 

Cuomo segir að verið sé að reyna að útvega fleiri öndunarvélar og þakkar Kína fyrir að hafa sent þeim eitt þúsund slíkar vélar sem eru væntanlegar í kvöld. Eins mun Oregonríki útvega 140 til viðbótar.

„Ég held að okkur líði öllum eins; streitan, landið, ríkið, þetta er ekki í líkingu við neitt það sem ég hef áður upplifað.“ 

AFP

Hann segir að um 85 þúsund sjálfboðaliðar hafi skráð sig í bakvarðasveitina, þar á meðal 22 þúsund ríkisstarfsmenn. Blasio telur að borgin þurfi 45 þúsund lækna og hjúkrunarmenntað starfsfólk til viðbótar það sem eftir lifir mánaðar og í maí. Cuomo ætlar að staðfesta tilskipun um að þeir sem eiga að útskrifast úr læknisfræði næsta sumar geti hafið störf nú þegar. 

„Þetta eru dæmalausir tímar og New York þarf á aðstoð að halda,“ segir Cuomo. Þegar er byrjað að heimila nemendum á fjórða ári við læknadeildina við New York University að hefja starfsnám. Gabrielle Mayer er ein þeirra og hún segir að þetta hafi verið auðvelt val miðað við hvernig ástandið er. 

mbl.is

Bloggað um fréttina