Minning um martröð

Fyrstu tíu dagana eftir að Vanesa Muro fæddi sitt fyrsta barn mátti hún ekki koma nálægt barninu þar sem hún greindist með kórónuveiruna og hætta var talin á því að hún myndi smita barnið.

Þrátt fyrir að hún og sonur hennar séu sameinuð á nýju mega foreldrarnir ekki snerta litla drenginn án þess að vera með hanska þar sem þau eru áfram í sóttkví.

„Þetta er erfitt,“ segir Vanesa Muro á heimili sínu í Madrid en ekkert svæði Spánar hefur orðið jafn illa úti í faraldrinum og höfuðborgin. „Hann grípur um fingur þína og heldur utan um plast, ekki þig. En þessu lýkur einn daginn og það er nauðsynlegt að horfa á það þeim augum því annað er niðurdrepandi,“ segir hún. 

Oliver Carrillo fæddist í Madrid 13.mars.
Oliver Carrillo fæddist í Madrid 13.mars. AFP

Hún átti að fæða með keisaraskurði 16. mars en allt breyttist þegar amma hennar, sem hún og eiginmaður hennar hittu á hverjum degi, veiktist af kórónuveirunni og lést síðar af völdum sjúkdómsins. Hinn 12. mars greindust hjónin smituð og fóru með hraði á La Paz-háskólasjúkrahúsið í Madríd en honum var ekki hleypt inn. „Þannig að hann yfirgaf mig á bráðamóttökunni,“ segir hún í samtali við AFP-fréttastofuna. Þar var tekin ákvörðun um að flýta keisaraskurðinum og framkvæma hann daginn eftir.

Móðir og sonur - á heimili Carrillo Muro fjölskyldunnar 28. …
Móðir og sonur - á heimili Carrillo Muro fjölskyldunnar 28. mars. AFP

„Alls konar tilfinningar brutust um inni í mér og þetta var hræðilegt. Ótti um að smita barnið. Kvíðinn yfir því að fara í gegnum þetta ein og fáránleikinn að vera skorin upp af skurðlæknateymi sem var hulið undir hlífðarbúnaði.“

AFP

 „Þetta voru lengstu 90 mínútur í lífi mínu,“ segir maður hennar, Oscar Carillo. En 90 mínútum síðar fæddist Oliver, við góða heilsu og vó 3,6 kg. Hann var settur strax í hitakassa og haldið frá öðrum nýburum þangað til í ljós kom að hann var ekki smitaður af kórónuveirunni. 

Oscar Carrillo og Vanesa Muro, með syni sínum Oliver sem …
Oscar Carrillo og Vanesa Muro, með syni sínum Oliver sem fæddist 13. mars 2020. AFP

Vanesu Muro var haldið í nánast fullkominni einangrun næstu tvo sólarhringa á meðan hún var að jafna sig eftir keisaraskurðinn en vegna þess hversu erfitt var með sóttvarnir á deildinni voru samskipti við starfsfólk sáralítil. Muro fékk síðan að fara heim en án drengsins. „Það er kannski asnalegt en þrátt fyrir að hann væri sjö hæðum neðar á sjúkrahúsinu fannst mér hann vera nær mér þar en eftir að ég kom heim,“ segir hún. 

Arantxa Fernandez, sálfræðingur á La Paz sjúkrahúsinu í Madríd ásamt …
Arantxa Fernandez, sálfræðingur á La Paz sjúkrahúsinu í Madríd ásamt mæðginunum Vanesu Muro og Oliver. Myndin er tekin 23. mars en þá fékk Vanesa drenginn í fyrsta skipti í fangið. AFP

Tíu dögum eftir fæðingu fengu hjónin, með hanska og grímur, að sækja hann á sjúkrahúsið. „Hey litli meistari, við erum að fara heim núna,“ voru fyrstu orðin sem Muro sagði við son sinn. „Það var eins og hann hefði fæðst þennan dag,“ bætir hún við. 

AFP

Fyrir Aröntxu Fernandez, sem er sálfræðingur á sjúkrahúsinu, er þetta ógleymanleg stund. „Þetta er það fallegasta sem ég hef upplifað á starfsferlinum,“ segir hún en á meðan drengurinn var á vökudeildinni sendi Frenandez foreldrunum myndir og myndskeið af Oliver og veitti þeim sálrænan stuðning. Foreldrarnir segja þennan stuðning hafa verið lífsnauðsynlegan. 

Oscar Carrillon með litla drenginn sinn.
Oscar Carrillon með litla drenginn sinn. AFP

Þrátt fyrir að þau hafi verið 14 daga í sóttkví er ekki til neinn prófunarbúnaður til að kanna hvort þau séu laus við veiruna. Því nota þau enn hanska og grímur. „Ég hef ekki enn snert son minn án hanska. Við getum ekki beðið eftir því að sóttkvínni ljúki og við getum snert hann og kysst,“ segir Carrillo á sama tíma og eiginkona hans gefur Oliver pela í öryggisskyni.

Fjölskyldan vonast til þess að kynna nýja fjölskyldumeðliminn fljótlega fyrir …
Fjölskyldan vonast til þess að kynna nýja fjölskyldumeðliminn fljótlega fyrir öðrum í fjölskyldunni. AFP

Nýbakaðir foreldrar geta ekki leitað stuðnings í faðmi fjölskyldna því þrátt fyrir að foreldrar Muro búi mjög nálægt þeim þá er útgöngubann á Spáni.

„Þetta er erfitt en við komumst í gegnum þetta,“ segir Muro. „Innan tíðar verður hann mánaðargamall og við komin aftur á ról,“ segir hún og bætir við: „Hann mun kynnast öfum sínum og ömmum, frænkum og frændum. Og allt þetta verður minning um martröð sem við gengum í gegnum,“ segir Vanesa Muro. 

mbl.is