Trump ætlar ekki að hylja vit sín

Trump segir það ekki fyrir sig að hylja vitin.
Trump segir það ekki fyrir sig að hylja vitin. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar ekki að nota andlitsgrímu eða klút til að hylja vit sín þrátt fyrir að tilmæli hafi komið frá ríkisstjórn hans um að allir Bandaríkjamenn skuli gera það í kringum annað fólk. Meira að segja eiginkona hans, Melania Trump, hefur hvatt fólk til þess, eftir að ráðleggingar þess eðlis komu frá sóttvarnamiðstöð Bandaríkjanna. Hvatti forsetafrúin fólk til að taka þessar ráðleggingar alvarlega, sem og félagsforðun. The Guardian greinir frá.

„Þetta er valfrjálst. Ég geri ekki ráð fyrir að ég geri þetta,“ sagði forsetinn á blaðamannafundi í gær. Þrýst var á Trump að útskýra það frekar af hverju hann vildi ekki hylja vit sín. „Mig langar bara ekki til að vera með grímu sjálfur. Þeir mæla með því að það sé gert, mæla með því. Mér líður vel,“ sagði forsetinn, en hann hefur tvisvar verið prófaður fyrir kórónuveirunni. Sýnin voru neikvæð í bæði skiptin.

Hann hélt áfram að reyna að útskýra afstöðu sína. „Ég ætla bara ekki að gera þetta. Að sitja á forsetaskrifstofunni, bak við þetta fallega skrifborð, með andlitsgrímu, þegar ég heilsa forsetum, forsætisráðherrum, konungum og drottningum, ég veit ekki alveg með það, sé það ekki alveg henta mér. Kannski snýst mér hugur, en þetta líður hjá og vonandi gerist það hratt.“

Aldrei hafa fleiri látist á einum sólahring í einu landi vegna kórónuveirunnar en í Bandaríkjunum, þegar 1.480 manns létust frá fimmtudagskvöldi til föstudagskvölds. Yfir 7.000 eru nú látnir vegna veirunnar þar í landi og tæplega 280 þúsund hafa smitast. Ástandið er einna verst í New York þar sem gjörgæsludeildir eru yfirfullar.

mbl.is