Um 1.500 létust á einum sólarhring í Bandaríkjunum

Staðan í New York er einna verst innan Bandaríkjanna.
Staðan í New York er einna verst innan Bandaríkjanna. AFP

1.480 manns létust síðastliðinn sólarhring af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum, en aldrei hafa fleiri látist í einu landi á svo skömmum tíma vegna veirunnar. Alls hafa nú 7.406 dauðsföll verið staðfest af völdum veirunnar þar í landi, en yfir 270 þúsund hafa smitast. Um er að ræða tölur frá John Hopkins-háskólanum. AFP-fréttastofan greinir frá.

Staðan er einna verst í New York þar sem gjörgæsludeildir eru yfirfullar. Í borginni hafa 57 þúsund smit verið staðfest og tæplega 1.900 látist. Á fimmtudagskvöld hvatti Bill de Blasio, borgarstjóri New York, íbúa til að hylja vit sín með klút, trefli eða heimatilbúinni lausn á förnum vegi. Ekki nota sérstakar hlífðargrímur því þær væru ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki.

Í gær fylgdi svo Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fordæmi Blasios, og hvatti alla Bandaríkjamenn til að hylja vit sín. Þó hefur verið tekið fram að grímurnar komi ekki í staðinn fyrir félagsforðun og reglulegan handþvott.

Þrír fjórðu Bandaríkjamanna sæta nú einhvers konar útgöngubanni.

mbl.is

Bloggað um fréttina