Veikir dvelja á fimm stjörnu hóteli

Heilbrigðisstarfsfólk ræðir við sjúkling á Melia Sarria hótelinu.
Heilbrigðisstarfsfólk ræðir við sjúkling á Melia Sarria hótelinu. AFP

Það tók einungis þrjá daga að breyta spænsku fimm stjörnu hóteli í eins konar sjúkrahús en nú dvelja þar 107 einstaklingar sem allir eiga það sameiginlegt að vera veikir af COVID-19. Ætlunin er að fylla öll 307 herbergi hótelsins af einstaklingum sem þjást af sjúkdómnum.

Spænska ríkisstjórnin skipaði öllum hótelrekendum að loka sínum dyrum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi en þar hafa um 11.000 manns látið lífið vegna faraldursins. Um 700 manns eru nú á hótelum í Madrid vegna veirunnar, bæði einstaklingar í einangrun og sóttkví. 

Hótelið Melia Sarria er í Barcelona en það opnaði dyr sínar fyrir sjúklingum 29. mars síðastliðinn. Í Barcelona eru nú 2.500 hótelherbergi í notkun, eða standa til boða, fyrir COVID-19-sjúklinga.

Gestir hótelsins koma nú einungis með sjúkrabílum.
Gestir hótelsins koma nú einungis með sjúkrabílum. AFP

Tekur á móti sjúklingum eins og gestum

Í stað þess að mæta á svæðið með ferðatöskur eru kúnnar Melia Sarria nú einungis með takmarkað magn af persónulegum eigum ásamt læknisskýrslu. 

Það má segja að Enrique Aranda, hótelstjóri Melia Sarria, komi fram við hina veiku gesti eins og hefðbundna gesti fimm stjörnu hótels. Hann tekur á móti þeim með bros á vör og reynir að fá sjúklingana, sem koma á hótelið eftir að hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi, til að brosa líka. 

„Ég sleppi þeim ekki út úr sjúkrabílnum fyrr en ég næ að framkalla bros á vörum þeirra. Ég vil ekki að þeim líði eins og þeir séu enn á sjúkrahúsi, þeir eru núna komnir á hótel,“ segir Aranda.

Fjöldi heilbrigðisstarfsfólks starfar í móttöku hótelsins.
Fjöldi heilbrigðisstarfsfólks starfar í móttöku hótelsins. AFP

Skilja mat eftir og hraða sér í burtu

Þótt móttökur hans séu hefðbundnar bíður heilt teymi hjúkrunarfræðinga í hlífðarfatnaði hvers sjúklings. Um leið og sjúklingarnir ganga inn fyrir dyr hótelsins mæla hjúkrunarfræðingarnir líkamshita þeirra, skoða læknisskýrslurnar og spyrja hvort þeir vilji að samband sé haft við aðstandendur.

Inni á hótelinu, sem er innréttað eftir nýjustu tísku og gjarnan skreytt marmara, er samskiptum fólks haldið í lágmarki. Ein lyfta er ætluð sjúklingum og önnur starfsfólki. Sjúklingarnir fá fjórar máltíðir á dag en þær eru allar settar fyrir utan herbergi þeirra. Starfsmaður bankar á hurðina þegar hann kemur með matinn og hraðar sér svo í burtu. Sjúklingurinn verður að telja upp að fimm áður en hann opnar dyrnar og sækir matinn. 

mbl.is

Kórónuveiran

31. maí 2020 kl. 15:31
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir