Fjarlægðin þrengir að

Sæl mamma mín. Hvernig hefur þú það í dag?
Sæl mamma mín. Hvernig hefur þú það í dag? AFP

„Ekki var liðin vika af hinu nýja lífi þegar ég áttaði mig á því að ég var dæmd til að troða eins mörgu með skóhorni inn á dagskrána mína og FK (fyrir kórónuveiruna). Nei, þetta hefur eiginlega verið verra – ég hef þurft að skóhorna ennþá fleiru inn. Ástæðan er sú að ekki er lengur til nein trúverðug afsökun fyrir því að hafna boði.“

Þannig komst breski blaðamaðurinn Helen Coffey að orði í pistli í dagblaðinu The Independent í vikunni en eins og aðrir Bretar þá er hún í útgöngubanni.

Já, það er erfitt að víkja sér undan rafrænum fundum og símtölum þessa dagana; það er ekki eins og maður þurfi að vera annars staðar á sama tíma. Þetta eru vondir tímar fyrir verslanir sem selja staðsetningartæki og aðrar græjur til að rekja ferðir fólks. Eins einkaspæjara.

Mamma hringir án afláts

Í fáfræði sinni stóð Coffey í þeirri meiningu að útgöngubannið yrði algjör andhverfa hins erilsama og óseðjandi félagslífs stórborgarinnar og að henni gæfist nú kærkomið tækifæri til að komast í samband við sitt innra sjálf. Ekki aldeilis.

„Skyndilega vildi fólk, sem ég hitti alla jafna á hálfs árs fresti, skipuleggja vikulega hittinga á FaceTime; og móðir mín, sem ég tala venjulega við tvisvar í mánuði, byrjaði allt í einu að hringja annan hvern dag,“ segir hún í pistlinum.

Okkar besti maður, Víðir, og ígildi hans um allan heim, hafa einmitt hvatt okkur til að taka upp tólið og hringja í þá sem okkur þykir vænt um og kanna hvernig þeir hafa það meðan faraldurinn geisar. Á skrifi Coffey má merkja að ekki þykir öllum það eins góð hugmynd.

Gott getur verið að sjá framan í aðra við þær …
Gott getur verið að sjá framan í aðra við þær aðstæður sem uppi eru um þessar mundir. AFP


Alls konar smáforrit eða öpp, sem fæst okkar hafa heyrt um áður, eru nú á allra vörum. Sá er þetta ritar er til dæmis eins aftarlega á merinni og hugsast getur þegar kemur að öppum og samfélagsmiðlum en hann tók á dögunum Teams í sína þjónustu til þess að geta haft skilvirk og greið samskipti við sína nánustu samverkamenn hér á blaðinu. Það hefur að mestu leyti gengið vel, nema hvað kappinn hefur verið spjaldaður fyrir óhóflega notkun á brosköllum. Það rjátlast líklega fljótt af manni, eins og öðrum nýgræðingum. En helvíti er gott úrval af þessum köllum þarna. Þið afsakið orðbragðið!

Allir heim í stofu

En sumsé. Fjarlægðin er farin að þrengja að Helen Coffey og það á ugglaust við um fleiri á þessum ótrúlegu tímum. Hver hefði búist við því? Fjarlægðin æðir í hlað, eins og eimreið, og eirir engu á leiðinni. Hvað varð um hóflegt næði? Hvað varð um friðhelgi einkalífsins? Þurfum við virkilega að bjóða öllum heiminum heim í stofu?

Svari nú hver fyrir sig!

Grein þessa í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert