Hleyptu kórónuveirusmituðum farþegum inn í Sydney

600 farþegar skipsins hafa greinst með kórónuveiru.
600 farþegar skipsins hafa greinst með kórónuveiru. Skjáskot af vef BBC

Í Ástralíu er verið að hefja sakamálarannsókn á því hvernig það kom kom til að farþegar fengu að fara frá borði skemmtiferðaskipsins Ruby Princess í Sydney þrátt fyrir að margir þeirra sýndu flensueinkenni. Yfir 600 farþegar skipsins hafa síðan greinst með kórónuveiruna og 10 þeirra látist. Skipið er enn við bryggju í Sydney en um borð eru hátt í 200 veikir áhafnarmeðlimir. BBC greinir frá.

Lögreglan í New South Wales segist ætla að rannsaka hvort sóttvarnalög hafi verið brotin þegar farþegunum var hleypt frá borði. Samtals hafa nú rúmlega 5.500 tilfelli af kórónuveirunni komið upp í Ástralíu og 30 eru látnir. Samkomubann hefur verið sett á í landinu og fólki gert að fylgja ströngum reglum um félagsforðun. Skemmtistöðum, kaffihúsum, almenningsgörðum og líkamsræktarstöðvum hefur verið lokað til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar.

Ákvörðun um að hleypa frá borði byggð á ráðgjöf sérfræðinga

Mick Fuller, lögreglustjóri í New South Wales, sagði á blaðamannafundi að mörgum spurningum væri ósvarað varðandi atvikið í tengslum við skemmtiferðaskipið. Hann sagði að samkvæmt lögum mættu skip aðeins leggjast að bryggju og láta farþega frá borði ef skipstjóri gæti staðfest við yfirvöld að þeir væru lausir við smitandi sjúkdóma. Misvísandi upplýsingar um málið hefðu fengist frá eigendum skipsins. „Eina leiðin til að komast til botns í því hvort sóttvarnalög hafi verið brotin og önnur lög er með sakamálarannsókn,“ sagði Fuller á fundinum.

Fyrir liggur að daginn áður en farþegarnir fóru frá borði kom neyðarsímtal úr skipinu vegna tveggja einstaklinga sem þurftu læknisaðstoð. Lögreglu var hins vegar tjáð að ekki væri um kórónuveiru að ræða. Yfirvöld í New South Wales hafa fengið á sig mikla gagnrýni vegna málsins, en greint hefur verið frá því að sú ákvörðun að hleypa farþegunum frá borði hafi verið byggð á ráðleggingum sérfræðinga. Skipafélagið hefur sagst ætla að vinna með lögreglu að rannsókninni en forsvarsmenn þess hafa ekki tjáð sig opinberlega um málið.

12 höfðu greint frá veikindum og sýni voru tekin

2.700 voru um borð í skipinu þegar það lagði að bryggju í Sydney í síðasta mánuði eftir 11 daga siglingu. Þá höfðu að minnsta kosti 12 farþegar greint frá veikindum og sýni fyrir kórónuveiru voru tekin. Einn farþegi var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús.

Öðrum farþegum var ekki greint frá þessu og streymdu þeir grunlausir frá borði, sumir hóstandi og hnerrandi, samkvæmt frásögnum vitna.

Elisa McCafferty, áströlsk kona sem býr í London, er ein þeirra sem voru um borð í skipinu. Hún flaug til London ásamt eiginmanni sínum daginn eftir að þau komu úr siglingunni. „Við fengum ekkert að vita um veikindi fólks um borð. Það var algjör skortur á upplýsingagjöf frá skipafélaginu,“ sagði hún í samtali við BBC.

Daginn eftir að farþegum var hleypt frá borði greindu yfirvöld frá því að þrír þeirra hefðu reynst smitaðir af kórónuveirunni og þá var farið í að reyna að hafa samband við alla sem voru um borð. McCafferty frétti því fyrst af þessu þegar hún var lent á Heathrow-flugvelli. „Ég var skelfingu lostin. Við höfðum verið um borð í tveimur þéttsetnum flugvélum. Hvað ef við hefðum smitað einhverja?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert