Tvennar flóttamannabúðir í sóttkví

AFP

Grísk yfirvöld hafa lokað öðrum flóttamannabúðum skammt frá Aþenu vegna smits í búðunum. Í síðustu viku var öðrum búðum lokað en á þriðja tug flóttamanna höfðu smitast þar.

Búðirnar sem var lokað í dag eru í Malakasa, um 38 km norðaustur af Aþenu. Íbúar þar eru komnir í sóttkví í tvær vikur sem þýðir að enginn fer þangað inn og enginn út. Alls búa yfir 1.700 manns í flóttamannabúðunum. 

AFP

53 ára gamall Afgani með undirliggjandi sjúkdóma leitaði læknishjálpar í búðunum og var fluttur þaðan á sjúkrahús í Aþenu þar sem kom í ljós að hann væri með kórónuveiruna.  Verið er að taka sýni úr fleirum í búðunum, bæði starfsfólki sem og íbúum með einkenni. Ekki verður farið í sýnatöku hjá öllum íbúunum þar sem það er of kostnaðarsamt segja yfirvöld.

AFP

Í síðustu viku voru 23 smit staðfest í Ritsona-flóttamannabúðunum en alls eru rúmlega 2.500 búsettir þar. Flóttamannabúðir í Grikklandi eru yfirfullar og búa þar tugþúsundir flóttamanna við slæmar aðstæður. Um 100 þúsund hælisleitendur eru nú í Grikklandi og halda flestir þeirra til í flóttamannabúðum en einhverjir eru í íbúðum og hótelum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert