Mannskæður fellibylur á leið yfir Kyrrahafið

Íbúar á eyjunni Vanutau undirbúa komu fellibylsins Harold.
Íbúar á eyjunni Vanutau undirbúa komu fellibylsins Harold. AFP

Fellibylurinn Harold, sem varð að minnsta kosti 27 manns að bana í síðustu viku við Solomon-eyjar í Kyrrahafi, heldur áfram að styrkjast. Harold er orðinn að fimmta stigs fellibyl, ferðast á 235 kílómetra hraða á klukkustund og rauðar viðvaranir hafa verið gefnar út á eyjum í Suður-Kyrrahafi, samkvæmt veðurstofu Vanuatu. 

Óttast er að hann eigi eftir að valda mikilli eyðileggingu þegar hann heldur áfram að mjakast yfir eyjarnar Vanutau sem liggja austan við Ástalíu. Enn sem komið er hefur ekkert kórónuveirusmit greinst í eyjunum en það gæti breyst á næstunni því veita þarf undanþágu við samkomubanni því íbúar þurfa að yfirgefa heimili sín og koma sér fyrir í fjöldahjálparstöðvum. 

Harold skall á eyjunni Espiritu Santo á mánudagmorgun og stefnir nú á Vanuatu og næststærstu borgina þar Luganville þar sem 16.500 búa. 

Enn sem komið er hafa engar fregnir borist af slysum á fólki. 

Í síðustu viku sigldi skipstjóri ferju milli eyjanna Honiara og Malaita í trássi við veðurviðvarnir með þeim afleiðingum að 27 manns skoluðust útbyrðis og týndu lífi. Ferjan var fullbókuð og  um borð í ferjunni voru um 700 manns og margir af þeim voru ferðamenn. Tilmæli yfirvalda voru þau að aðrir en íbúar skyldu halda til síns heima vegna kórónuveirunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert