Verslanir í Austurríki opnaðar í næstu viku

Sebastian Kurz tekur af sér andlitsgrímu á blaðamannafundi.
Sebastian Kurz tekur af sér andlitsgrímu á blaðamannafundi. AFP

Útlit er fyrir að Austurríki verði fyrsta evrópska ríkið til að aflétta útgöngubanni að hluta til vegna kórónuveirunnar. Stjórnvöld hafa í hyggju að opna litlar verslanir aftur í landinu strax í næstu viku.

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, lagði fram tímaáætlun í dag sem snýst um að endurreisa efnahaginn í landinu. Þar er greint frá því hvernig hlutirnir verða færðir í fyrra horf skref fyrir skref án þess að auka hættuna á nýjum sýkingum vegna veirunnar.

Á sama tíma og mörg Evrópuríki eiga fullt í fangi með að halda aftur af veirunni og með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið ætlar Austurríki að létta á þeim höftum sem hafa verið uppi, að því er Financial Times greinir frá.

Við Stephansdómkirkjuna í Vín. Þar eru fáir á ferli þessa …
Við Stephansdómkirkjuna í Vín. Þar eru fáir á ferli þessa dagana. AFP

„Förum eftir tilmælunum, forðumst félagsleg tengsl, verið í öruggri fjarlægð á opinberum stöðum,“ sagði Kurz. Samkvæmt tímaáætluninni verða litlar verslanir opnaðar á nýjan leik 14. apríl. Frá og með 1. maí verða önnur fyrirtæki, þar á meðal hárgreiðslustofur, opnuð aftur. Hugsanlega verða veitinga- og kaffihús opnuð um miðjan maí. Stórir viðburðir verða ekki leyfðir fyrr en í júlí. Ekki hefur verið ákveðið hvenær skólar verða opnaðir í landinu á ný.

Ríkisstjórn landsins tilkynnti einnig hertar reglur varðandi notkun andlitsgríma og núna þurfa Austurríkismenn einnig að nota þær í almenningssamgöngum. Hingað til hafa þeir aðeins þurft að nota þær í stórmörkuðum og öðrum verslunum.

Yfir 12 þúsund manns hafa greinst með kórónuveiruna í landinu. Að því er AFP-fréttastofan greinir frá hafa 204 látið lífið og 2.998 jafnað sig af veirunni. Baráttan við hana hefur verið hörð, enda smituðust margir af henni í skíðaferð þar í landi, þar á meðal á skíðasvæðinu Ischgl. Íslendingar voru þar á meðal.

mbl.is

Kórónuveiran

3. júní 2020 kl. 13:09
2
virk
smit
1794
hafa
náð sér
0
liggur á
spítala
10
eru
látnir