Hæsta dánartalan til þessa í New York

Heilbrigðisstarfsfólk flytur lík til geymslu við spítala í Brooklyn í …
Heilbrigðisstarfsfólk flytur lík til geymslu við spítala í Brooklyn í gær. Dánartölur dagsins í dag eru þær hæstu sem hafa borist frá New York. AFP

Dánartölur í Bandaríkjunum fóru yfir 10 þúsund í gær. Ástandið versnaði hratt í seinni hluta síðustu viku. Fyrstu fimm þúsundin létust á þrjátíu dögum en næstu fimm þúsund létust á einungis fimm dögum. Ástandið er alvarlegast í New York þar sem næstum helmingur allra smita í landinu hefur greinst. Vestra eru þó miklar áhyggjur af ástandinu sunnar í landinu þar sem smit og dauðsföll hafa dreifst verulega á svæðum þar sem byggð er mun dreifðari. Veiran hefur greinst í meirihluta stórborga landsins þar sem um 85% þjóðarinnar búa. Þó verður að hafa í huga að skimanir hafa verið ónægar og líklegt er að tölurnar séu mun hærri í raun. 

Skýring NY Times um tölur í Bandaríkjunum.

Alls hafa 5489 manns látið lífið í faraldrinum í New …
Alls hafa 5489 manns látið lífið í faraldrinum í New York og er það tæpur helmingur dauðsfalla sem hafa orðið í Bandaríkjunum. AFP

731 lét lífið undanfarinn sólarhring í New York sem er hæsta dánartala af völdum veirunnar í ríkinu til þessa. Um talsvert áfall er að ræða eftir tvo daga í röð þar sem tölur höfðu lækkað. Andrew Cuomo ríkisstjóri hefur þó reynt að efla trú fólks og sagt að ýmislegt bendi til að nú sé toppur kúrfunnar á svæðinu í nánd.

Trump hefur á undanförnum dögum talað um að nota hydroxychloroquine í baráttunni við faraldurinn. Lyfið sem yfirleitt er nýtt í meðferð við malaríu er þó langt í frá óumdeilt og margir hafa talað gegn því að beita því við Covid-19 að undanförnu. 

Ítarlega er fjallað um þessa stefnu forsetans á vef Washington Post þar sem sérstaklega er farið í saumana á því hvernig það æxlaðist að forsetinn hallast í þessa átt. 

Minnisblaðið frá Peter Navarro hefur ollið nokkru fjaðrafoki vestanhafs.
Minnisblaðið frá Peter Navarro hefur ollið nokkru fjaðrafoki vestanhafs. AFP

Í bandarískum fjölmiðlum hefur einnig verið mikið fjallað um minnisblað sem Peter Navarro, háttsettur ráðgjafi í efnahagsmálum, skrifaði hinn 29. janúar þar sem hann varaði sterklega við faraldrinum sem væri yfirvofandi og myndi stefna lífi milljóna í hættu. Á sama tíma gerði Trump forseti lítið úr hættunni af veirunni.  

Fyrir helgi birtust þær tölur í bandarískum fjölmiðlum að dauðsföll vegna faraldursins gætu verið allt á milli 100.000 og 240.000. Nú hafa tölurnar verið endurskoðaðar og ný spálíkön verið gerð sem gera ráð fyrir færri dauðsföllum. Ýmislegt er þó óljóst og í höfuðborginni er gert ráð fyrir að hápunktur faraldursins verði um miðjan apríl en fyrri líkön miðuðu við enda júnímánaðar. Munurinn er því umtalsverður og óvissan einnig.

Demókratar greiða atkvæði í forvali forsetakjörs í Wisconsin. Kosið var …
Demókratar greiða atkvæði í forvali forsetakjörs í Wisconsin. Kosið var þrátt fyrir faraldurinn og hefur verið hart deilt um hvort rétt væri að fresta kosningunum líkt og ákveðið var að gera í mörgum ríkjum. AFP

Undirbúningur fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum er í fullum gangi og einhverjar raddir eru byrjaðar að heyrast um að rétt sé að seinka þeim. Joe Biden, sem hefur nú yfirhöndina gegn Bernie Sanders í forvali demókrata um útnefningu sem frambjóðandi flokksins, sagði ekki koma til greina að fresta kosningunum sem eiga að fara fram í nóvember. Hann benti á að kosið hefði verið þegar borgarastríð var í landinu og meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð. 

Mikið fjaðrafok hefur verið vegna forvals í forsetakjörinu í Wisconsin þar sem kjósendur hafa farið á kjörstað þrátt fyrir að yfirvöld í ríkinnu hafi beint þeim tilmælum til fólks að halda sig heima. 

Kjósendur í Wisconsin hafa farið á kjörstað þrátt fyrir tilmæli …
Kjósendur í Wisconsin hafa farið á kjörstað þrátt fyrir tilmæli stjórnvalda um að fólk haldi sig heima. Málið hefur orðið mjög pólitískt þar sem demókratar vildu fresta kosningum á meðan repúblikanar kröfðust þess að kosningarnar færu fram og sigruðu deiluna fyrir dómi. AFP

Fjárfestar virðast vera farnir að hafa trú á að ástandið leysist sem birtist í því að vísitölur hlutabréfamarkaða eru nú að hækka annan daginn í röð. Standard & Poors hefur til að mynda hækkað um 19 prósent frá sinni lægstu stöðu 23. mars. 

Byrjað er að útskrifa læknanema fyrr úr skóla til að bregðast við ástandinu. Grossmann-skólinn í New York útskrifaði 52 læknanema á föstudag svo þeir gætu létt undir með heilbrigðisstarfsfólki á svæðinu þar sem álagið hefur verið gríðarlegt og ekki útlit fyrir að það breytist í bráð.

Stuðst var við vefi New York Times, Washington Post og CNN við vinnslu fréttarinnar.

Yfirleitt er meiri erill á háannatíma í Los Angeles.
Yfirleitt er meiri erill á háannatíma í Los Angeles. AFP
Skimað fyrir veirunni í Las Vegas í Nevada. Byrjað var …
Skimað fyrir veirunni í Las Vegas í Nevada. Byrjað var að skima endurgjaldslaust seinni hlutann í mars en nú eru prófin sem Háskólinn í Las Vegas hefur notað við skimanir á þrotum og gert er ráð fyrir hlé verði gert eftir morgundaginn. AFP
Þessi hjólreiðamaður í Los Angeles hefur sett upp gasgrímu til …
Þessi hjólreiðamaður í Los Angeles hefur sett upp gasgrímu til að forðast smit. AFP
Í ráðstefnuhúsi í Seattle hefur verið sett aðstaða fyrir heimilislausa. …
Í ráðstefnuhúsi í Seattle hefur verið sett aðstaða fyrir heimilislausa. Búið er að setja upp 150 rúm með tveggja metra bili til að hýsa fólkið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert