Íbúum Wuhan leyft að yfirgefa borgina

Farþegar eru nú þegar farnir að hópast á lestarstöðvar og …
Farþegar eru nú þegar farnir að hópast á lestarstöðvar og undirbúa sig fyrir að fá loks að fara frá Wuhan í fyrramálið. AFP

Frá og með morgundeginum má fólk yfirgefa kínversku borgina Wuhan í fyrsta sinn síðan 23. janúar. Sömuleiðis verður fólki aftur leyft að nota almenningssamgöngur. 28. mars síðastliðinn var fólki leyft að fara til borgarinnar á nýjan leik en ekki yfirgefa hana. Fyrsta smit kórónuveiru kom upp í Wuhan.

Hver sá sem hefur fengið grænan kóða á þekktu smáforriti fyrir snjallsíma hefur nú leyfi til að fara frá borginni. Tengingu Wuhan við umheiminn með opnun vega og lestarferðum hefur sömuleiðis verið komið á. Þrátt fyrir að flugferðir séu enn takmarkaðar frá borginni eru 200 flugferðir á áætlun á morgun sem 10.000 farþegar munu ferðast með.

Engin dauðsföll vegna veirunnar voru skráð í Kína í dag. Það er í fyrsta sinn síðan kínversk yfirvöld fóru að birta tölur um dauðsföll. 

Í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu veirunnar í Wuhan komu kínversk yfirvöld á fordæmalausum takmörkunum á ferðalögum og fyrirskipuðu flestum fyrirtækjum í stórborginni að loka en í Wuhan búa um 11 milljónir manna.

Wuhan mælikvarði á heimsbyggðina

Einhverjar takmarkanir á daglegu lífi eru þó enn í Wuhan og eftirköst faraldursins verða líklega mikil. Hann hefur haft mikil áhrif á efnahaginn í Wuhan og halda hverfayfirvöld áfram að stjórna ferðum fólks. Ekkert útlit er fyrir að lífið verði eins og það var áður. 

Fyrst um sinn sá heimsbyggðin aðgerðir kínverskra stjórnvalda í Wuhan sem öfgafullar og nokkuð sem væri ekki mögulegt að framkvæma annars staðar. Síðan þá hefur sambærilegum aðgerðum verið beitt um heim allan og stjórnvöld á alþjóðavísu hafa sett ströng höft á líf fólks. Wuhan gæti því orðið mælikvarði á það hvernig heimsbyggðin mun ná að jafna sig eftir faraldurinn. 

Frétt New York Times

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert