Lögreglan stöðvaði Pink Floyd-kórónupartí

Lögreglan í New Jersey að störfum í síðasta mánuði vegna …
Lögreglan í New Jersey að störfum í síðasta mánuði vegna kórónuveirunnar. AFP

Hópur fólks í Pink Floyd-partíi hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hrópa ókvæðisorð að lögregluþjónum í New Jersey eftir að fólkið braut reglur um útgöngubann sem var sett á til að hemja kórónuveiruna.

Um 30 manns söfnuðust saman til að horfa á órafmagnaða tónleika með bestu lögum bresku rokksveitarinnar á lóð heimilis í Rumson, strandbæ suður af New York-borg. Tónleikunum var einnig streymt á samfélagsmiðlum.

Hringt var á lögregluna til að stöðva samkomuna en hún fékk kaldar viðtökur.

„Þegar við sögðum öllum að þeir yrðu að yfirgefa svæðið fengum við kveðjur á borð við „Til fjandans með lögregluna“ og „Velkomin til Þýskalands nasismans“,“ sagði í færslu lögreglunnar á Facebook seint á laugardag.

Lögreglan bað hljómsveitina að hætta að spila þegar hún var í miðju laginu Wish You Were Here en lagið er oft spilað til heiðurs fjarverandi vinum.

„Lögreglunni í Rumson finnst ekkert gaman að eyðileggja skemmtunina hjá fólki,“ sagði lögreglan. „Við verðum samt öll að bera ábyrgð og taka þennan faraldur alvarlega og fylgja reglum um að halda fjarlægð.“

Ríkisstjórinn Phil Murphy í apríl í fyrra.
Ríkisstjórinn Phil Murphy í apríl í fyrra. AFP

Í síðasta mánuði bað Phil Murphy, ríkisstjóri New Jersey, íbúa að halda sig heima við og fara ekki út úr húsi nema af brýnni nauðsyn. Síðan þá hefur hann þurft að ávíta íbúa fyrir að hunsa reglur um útgöngubann og safnast saman í stórum hópum. „Ég trúi því ekki að ég þurfi að segja þetta yfirhöfuð,“ tísti hann í síðustu viku. „Engin kórónupartí. Þau eru ólögleg, hættuleg og heimskuleg.“

mbl.is