Hvetja breska gæludýreigendur til að halda köttum inni

Breskir gæludýraeigendur eru hvattir til að halda köttum sínum innadyra …
Breskir gæludýraeigendur eru hvattir til að halda köttum sínum innadyra sérstaklega ef heimilisfólk hefur greinst með kórónuveiruna. mbl.is/Golli

Gæludýraeigendur í Bretlandi eru hvattir til að halda köttum sínum inni til að hindra að kettir beri kórónuveirusmit sín á milli. Hins vegar segja samtök breskra dýralækna „að eigendur ættu ekki að óttast“ að smitast af veirunni af gæludýrum sínum. BBC greinir frá. 

„Það hefur ekki eitt tilvik greinst þar sem gæludýr, hundur eða köttur, hefur smitað manneskju af COVID-19,“ segir læknirinn Angel Almendros frá Hong Kong. Hann bætti því við að hins vegar gætu kettir smitast af öðrum köttum sem eru með veiruna. Að því sögðu bætti hann við að það væri skynsamlegt að halda köttum innandyra, í öruggu umhverfi, á meðan faraldurinn gengur yfir. 

Vitað er að dýr geta fengið veiruna af mönnum. 

Forseti samtaka breskra dýralækna tekur í sama streng og Almendros en segir þetta helst eiga við um gæludýr þeirra eigenda sem hafa greinst með kórónuveiruna. Þeir geti mögulega borið yfirborðssmit á sér. 

Brýnt er fyrir þeim sem greinast með veiruna að halda sig í einangrun og huga vel að því að umgangast ekki dýrin sín á meðan veikindin ganga yfir. Einnig að huga vel að eigin hreinlæti. 

Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á gæludýrum sem hafa greinst með veiruna sýna að þau veikjast ekki alvarlega af veirunni. Samanber tígrisdýrið sem greindist með kórónuveiruna í dýragarði í Bronx í Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert