Kaupa yfir tvær milljónir lítra af áfengi á viku

Verulega söluaukning hefur orðið í áfengisverslunum norska ríkisins eftir að …
Verulega söluaukning hefur orðið í áfengisverslunum norska ríkisins eftir að gripið var til aðgerða til þess að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Sala í áfengisverslunum norska ríkisins, Vinmonopolet, hefur verið í hæstu hæðum í kjölfar aðgerða þarlendra yfirvalda til þess að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Þá segir í umfjöllun E24 að í sömu viku og aðgerðir voru kynntar, um miðjan mars, hafi verið seld 2,1 milljón lítra af áfengi, en meðalsala á viku árið 2019 nam 1,6 milljónum lítra.

Vikuna eftir nam salan 2,1 milljón lítra, vikuna þar á eftir 2 milljónum lítra og í síðustu viku skaust salan upp í 2,6 milljónir lítra. Til samanburðar er mest selt vikuna fyrir jól og þá eru seldar 56 milljónir lítra.

Jens Nordahl, upplýsingafulltrúi Vinmonopolet, segir söluna hjá fyrirtækinu hafa frá því að gripið var til aðgerða haldist á svipuðu stigi og gerist almennt vikuna fyrir páska. „Strax og landamærunum var lokað, tax-free salan lokaðist og barir og veitingastaðir hættu að bjóða áfengi höfum við séð þennan vöxt. Þetta er ekki mikill vöxtur miðað við það að allar þessar [verslunar]leiðir hafa stöðvast.“

Ekki aukin drykkja

Hann bendir á að salan hafi aukist mest í verslunum sem eru nálægt landamærunum að Svíþjóð. Það ætti hugsanlega ekki að koma á óvart þar sem um 90% af sölu áfengisverslana sænska ríkisins, Systembolaget, við landamærin að Noregi hefur verið til Norðmanna. Talið er að á ársgrundvelli versli Norðmenn fyrir um 2,2 milljarða sænskra króna, jafnvirði 31,4 milljarða íslenskra króna, í þrettán verslunum Systembolaget við norsku landamærin.

Þá segir Nordahl þessi fyrrnefndu atriði benda til þess að neysla áfengis hafi ekki aukist þrátt fyrir söluaukningu hjá Vinmonopolet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert