Náðu ekki samkomulagi um aðgerðapakka ESB

Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, ásamt ráðgjöfum, á fjarfundi fjármálaráðherra …
Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, ásamt ráðgjöfum, á fjarfundi fjármálaráðherra Evrópusambandsríkjanna sem lauk í morgun eftir 16 tíma árangurslausar viðræður um aðgerðapakka ESB vegna kórónuveirufaraldursins. Fundarhöld halda áfram í dag. AFP

Fjármálaráðherrum Evrópusambandsríkjanna tókst ekki að komast að samkomulagi um sameiginlegan aðgerðapakka vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins á maraþonfundi sem lauk undir morgun. 

Samkvæmt frétt AFP var það afstaða ítalskra yfirvalda sem gerði útslagið, en Ítalir, auk Spánverja og Frakka, vilja leysa skuldavandann með útgáfu sérstakra kórónuskuldabréfa sem öll aðildarríkin taki þátt í að greiða. 

„Eftir 16 klukkustunda samningaviðræður nálguðumst við niðurstöðu en erum ekki komin þangað enn þá. Ég sleit fundi en við höldum áfram í dag, fimmtudag,“ segir Mario Centeno, sem fer fyrir evruhópnum, þar sem allir fjármálaráðherrar aðildarríkjanna eiga sæti.

Mario Centeno, fjármálaráðherra Portúgal og forsvarsmaður evruhópsins.
Mario Centeno, fjármálaráðherra Portúgal og forsvarsmaður evruhópsins. AFP

Ágreiningurinn liggur helst milli ríkja í norðanveðri og sunnanverðri álfunni. Ítalir og Spánverjar hafa þannig sakað ríki á borð við Þýskaland og Holland um aðgerðaleysi. Ríkin sem hafa orðið hvað verst úti í faraldrinum, líkt og Ítalía og Spánn, vilja gefa út kórónuskuldabréf en Þjóðverjar og fleiri auðugri ríki innan sambandsins virðast ekki vera tilbúin að veita verr settum ríkjum frekari aðstoð en þegar hefur verið samþykkt. 

Þjóðverjar vilja fara svipaða leið og var farin eftir efnahagshrunið 2008 og setja upp sérstakan lánasjóð. Þá eru fjármálaráðherrarnir sagði vera sammála um þrjár leiðir. Í fyrsta lagi að nýta rúmlega 400 milljarða evra stöðugleikasjóð ESB, í öðru lagi að nýta fjárfestingasjóð sambandsins og í þriðja lagi nýta nýjan 100 milljarða evra sjóð sem er hugsaður fyrir starfsfólk og fyrirtæki sem verða fyrir höggi af völdum faraldursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina