Yfir 1.800 dauðsföll í Bandaríkjunum síðasta sólarhring

Nær 13 þúsund hafa látið lífið af völdum COVID-19 í …
Nær 13 þúsund hafa látið lífið af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum frá því að veiran hóf að breiðast út þar í landi síðari hluta janúarmánaðar. AFP

Yfir 1.800 dauðsföll af völdum kórónuveirunnar voru tilkynnt í Bandaríkjunum í gær og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring. Hæsta talan til þessa var 1.344 sem tilkynnt var síðustu helgi. 

Nær 13 þúsund hafa látið lífið af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum frá því að veiran hóf að breiðast út þar í landi síðari hluta janúarmánaðar. Fyrstu fimm þúsund­in lét­ust á þrjá­tíu dög­um en næstu tæp átta þúsund á ein­ung­is sex dög­um.

Þá nálgast staðfest tilfelli í Bandaríkjunum 400 þúsund og smitin á heimsvísu eru orðin 1,4 milljónir en hvergi fleiri en í Bandaríkjunum. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir samt sem áður að Bandaríkin séu að nálgast hápunkt faraldursins. 

731 lét lífið und­an­far­inn sól­ar­hring í New York sem er hæsta dán­artala af völd­um veirunn­ar í rík­inu til þessa. Um tals­vert áfall er að ræða eft­ir tvo daga í röð þar sem töl­ur höfðu lækkað. Andrew Cu­omo rík­is­stjóri hef­ur þó reynt að efla trú fólks og sagt að ým­is­legt bendi til að nú sé topp­ur kúrf­unn­ar á svæðinu í nánd.

Staðfest smit í ríkinu eru nú orðin fleiri en staðfest smit á Ítalíu, þar sem faraldurinn hefur geisað hvað verst í Evrópu. 135.586 hafa greinst á Ítalíu en 138.836 í New York. Dauðsföllin eru þó fleiri á Ítalíu en í New York, eða 17.127 samanborið við 5.489. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert