Farþegum kórónufleys hleypt frá borði

Veikum farþega hleypt frá borði í Montevideo.
Veikum farþega hleypt frá borði í Montevideo. AFP

Stórum hluta farþega ástralska skemmtiferðaskipsins Greg Mortimer hefur verið hleypt frá borði í Montevideo, höfuðborg Úrúgvæs. Tæp 60% skipverja, 128 af 217, hafa greinst með kórónuveiruna. CNN greinir frá.

Skipið lagði úr höfn 15. mars og setti stefnuna á suðurskautið. Eftir að upp komst um kórónuveirusmit í byrjun mánaðar óskaði skipstjórinn eftir að fá að koma í höfn í Montevideo en ekki fékkst leyfi frá úrúgvæskum yfirvöldum fyrr en í gær. Sex farþegar hafa verið fluttir á gjörgæslu í Montevideo, en á myndbandi sem deilt var á Twitter má sjá liðsmenn úrúgvæska sjóhersins ferja farþegana af skipinu yfir í annað skip sem bar þá að landi.

Eingöngu smitlausum farþegum og smituðum farþegum frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi hefur þó verið hleypt frá borði, en þeir síðarnefndu voru fluttir með flugi til Melbourne í Ástralíu í dag, þar sem þeim er gert að sæta 14 daga sóttkví. Í yfirlýsingu frá skipafélaginu Aurora segir að farþegarnir hafi flogið með sérútbúinni Airbus A340-vél þar sem aðstaða er fyrir læknisþjónustu og möguleiki á að einangra farþega. Er kostnaður áætlaður um 1,3 milljónir króna á hvern farþega, en í yfirlýsingunni kemur fram að viðræður standi yfir við áströlsk yfirvöld um þátttöku í kostnaðinum sem forsvarsmenn fyrirtækisins segja að margir farþegar hafi ekki ráð á.

Farþegar frá öðrum ríkjum, mestmegnis Evrópubúar og Ameríkanar, sem hafa greinst með smit, þurfa áfram að dvelja í skipinu þar til niðurstaða sýnatöku er neikvæð, en sýni eru tekin úr öllum farþegum á tveggja til þriggja daga fresti.

mbl.is