Svíar senda út heimapróf vegna veirunnar

Svíar hafa meðal annars framkvæmt sínar prófanir í tjöldum.
Svíar hafa meðal annars framkvæmt sínar prófanir í tjöldum. AFP

Þúsund íbúar Stokkhólms sem valdir voru af handahófi fá sýnatökubúnað í póstinum nú um páskahelgina sem þeir geta nýtt til þess að athuga hvort þeir séu orðnir ónæmir fyrir kórónuveiru. Með þessu reyna tveir prófessorar KTH-tækniháskólans í Stokkhólmi að kortleggja hversu margir í borginni hafi myndað ónæmi við COVID-19. 

Þetta kemur fram á vef KHT.

Með prófunum er líkamsvökvi viðkomandi rannsakaður og magn mótefna eða próteina sem eru í líkamanum þegar hann bregst við ákveðinni sýkingu mæld. 

Prófessorarnir tveir, Niclas Roxhed og Jochen Schwenk, stefna ekki bara á að kanna útbreiðslu ónæmisins með þessu heldur einnig að leiða í ljós hvernig heimapróf fyrir COVID-19 gætu hjálpað sænskum yfirvöldum í að hefta útbreiðslu sjúkdómsins án þess að reyna um of á heilbrigðiskerfi landsins.

„Með þessu viljum við athuga möguleikann á sýnatöku heima fyrir sem auðveldar fólki að fá úr því skorið hvort það sé smitað,“ segir Roxhed. „Þetta getur gert okkur kleift að þróa áreiðanlegt próf sem er ekki íþyngjandi fyrir heilbrigðiskerfið.“

Þegar nýjustu tölur um útbreiðslu veirunnar í Svíþjóð bárust í gær höfðu 793 fallið frá vegna veirunnar. Um 477 sjúklingar voru á gjörgæslu en alls höfðu 719 verið lagðir inn á gjörgæslu í Svíþjóð. 9.141 smit hafði þá greinst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert