Útgöngubann verður framlengt á Ítalíu

Ítalskur karlmaður með andlitsgrímu skoðar dagblaðið.
Ítalskur karlmaður með andlitsgrímu skoðar dagblaðið. AFP

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, er sagður ætla að framlengja flestar þær aðgerðir sem hefur verið gripið til í landinu vegna kórónuveirunnar þangað til snemma í maí.

Í dagblaðinu Corriere della Sera kemur fram að Conte muni tilkynna þetta annaðhvort í dag eða á morgun. Þetta þýðir til dæmis að Ítalir geta ekki farið í göngutúra eða í almenningsgarða fyrr en 3. maí.

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Alls hafa 18.279 látist af völdum Covid-19 á Ítalíu síðan í lok febrúar, sem er það mesta í heiminum. Þó hefur dregið úr aukningu tilfella að undanförnu.

Dagblaðið segir að Conte muni láta undan þrýstingi og leyfa litlum fyrirtækjum að opna á nýjan leik þegar þær hömlur sem eru núna í gangi renna út 13. apríl. Bókabúðir eru þar á meðal.

Hjólandi kona með andlitsgrímu á Ítalíu.
Hjólandi kona með andlitsgrímu á Ítalíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert