„Vonuðum að færi ekki svona“

Ekkert verður af einni annáluðustu tónlistarhátíð Skandinavíu og Evrópu, hinni …
Ekkert verður af einni annáluðustu tónlistarhátíð Skandinavíu og Evrópu, hinni dönsku Hróarskelduhátíð, í ár. Hefði hún orðið sú fimmtugasta í röðinni en nú verður messufall vegna heimsástands. Ljósmynd/Wikipedia.org/Bill Ebbesen

Aðstandendur hinnar annáluðu dönsku tónlistarhátíðar í Hróarskeldu, Roskildefestivalen, harma mjög að ekkert verði af hátíðinni í sumar sem ellegar hefði orðið sú fimmtugasta í röðinni, en þetta var tilkynnt fyrr í vikunni.

Áætlað var að hátíðin 2020 yrði haldin dagana 27. júní til 4. júlí en ljóst er nú að svo verður ekki vegna heimsfaraldursins. Aðstandendur hátíðarinnar harma messufallið sem mest má vera.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, lýsti því yfir á blaðamannafundi á mánudaginn að framlenging banns dönsku ríkisstjórnarinnar við fjölmennum samkomum á borð við tónleikahátíðir næði einnig yfir Hróarskelduhátíðina.

Verður ekki lýst með orðum

„Sorg okkar verður ekki lýst með orðum,“ skrifa aðstandendur hátíðarinnar í fréttatilkynningu sem danska dagblaðið Politiken birti meðal annars, en einnig hafa tíðindin verið send með tölvupósti til allra áskrifenda tölvupóstlista hátíðarinnar.

Ráðgert var, eins og tíðkast í meðalári, að tugir ef ekki hundruð listamanna kæmu fram á hátíðinni í ár, þar á meðal voru Deftones, Faith No More, Taylor Swift, Kendrick Lamar og ótal fleiri, en ljóst er nú að af því verður ekki að sinni.

Signe Lopdrup, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, kveðst með böggum hildar. Allar vonir hafi staðið til að tækist að halda Hróarskelduhátíðina í fimmtugasta skiptið, en af því verði þó ekki sumarið 2020. „Við vonuðum fram á elleftu stundu að þetta færi ekki svona, en áhættan gagnvart smiti er of mikil,“ segir Lopdrup. Tugir þúsunda komi saman á hátíðinni hvert ár og áhættan sé einfaldlega ekki takandi eins og á stendur í heimsmálum.

Haldin síðan 1971

Stjórnendur Hróarskelduhátíðarinnar harma messufall ársins 2020 ákaflega, en geta þess í tilkynningu sinni að þeir, sem þegar hafi keypt miða, geti nýtt þá fyrir hátíðina sumarið 2021 ellegar fengið endurgreitt krefjist þeir þess.

Hróarskelduhátíðin var fyrst haldin sumarið 1971 utan við bæinn Hróarskeldu á Sjálandi og öðlaðist áður en hendi varð veifað miklar alþjóðlegar vinsældir. Um þessar mundir er Hróarskelduhátíðin stærsta tónleikahátíð á Norðurlöndum og ein hinna stærstu í Evrópu. Sumarið 2008 sóttu 67.000 gestir hátíðina samtímis því sem 25.000 sjálfboðaliðar lögðu þar gjörva hönd á plóg.

Roskilde Foundation, rekstraraðili hátíðarinnar, lætur allan gróða af hátíðinni renna til góðgerðarmála.

DR

Berlingske

Jyllands-Posten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert