Niðurstöður sem vekja vonir

AFP

Tveir af hverjum þremur sem veikst hafa alvarlega af völdum kórónuveirunnar sýna batamerki eftir tilraunameðferð lyfsins remdesivir frá bandaríska lyftjafyrirtækinu Gilead.

Niðurstöðurnar voru birtar í vísindaritinu New England Journal of Medicine í gær og greindi RÚV frá þeim snemma í morgun.

Lyfið var prófað á 61 sjúklingi víðs vegar um heiminn; í Evrópu, Japan, Bandaríkjunum og Kanada, en allir fengu sjúklingarnir tíu daga skammt af lyfinu í æð.

Höfundur greinarinnar segir niðurstöðurnar vekja vonir en ekki er gerð grein fyrir hvaða fleiri meðferðir sjúklingarnir fengu meðan á tilraun stóð. Erfitt sé að túlka niðurstöðurnar þar sem enginn samanburðarhópur var til staðar og sjúklingar frekar fáir.

30 sjúklinganna voru í öndunarvél og fjórir í vél sem aðstoðar við blóðflæði. Um tveimur og hálfri viku eftir að meðferð lauk batnaði súrefnisinntaka 36 sjúklinga, þar af hjá helmingi þeirra sem voru í öndunarvél.

25 sjúklingar voru útskrifaðir en sjö létu lífið. Tólf fengu alvarlegar aukaverkanir.

mbl.is