„Fordæmalaust“ samstarf í þágu bóluefnis

Þróun bóluefnis gæti skipt Íslendinga miklu máli, rétt eins og …
Þróun bóluefnis gæti skipt Íslendinga miklu máli, rétt eins og heimsbyggðina alla, en menntamálaráðherra sagði í viðtali við Viðskiptamoggann nýverið að afar ósenni­legt væri að opn­ast muni fyr­ir flæði fólks til og frá land­inu fyrr en hægt yrði að bólu­setja fólk fyrir kór­ónu­veirunni. mbl.is/Hari

Tvö stærstu bóluefnafyrirtæki heims hafa tekið höndum saman í „fordæmalausu“ samstarfi við að þróa bóluefni við COVID-19, samkvæmt frétt Guardian. Samstarf fyrirtækjanna tveggja er mikilvægt vegna þess að ef vel tekst til hafa fyrirtækin tvö getu til að framleiða þau hundruð milljóna skammta sem líklega er þörf á um allan heim.

GlaxoSmithKline (GSK) og Sanofi, sem samanlagt hafa mestu framleiðslugetu bóluefnafyrirtækja á heimsvísu, vinna saman að þróun hátæknibóluefnis sem fyrirtækin segja að gætu verið prófuð á mönnum á næstu mánuðum.

Bóluefnið sem fyrirtækin þróa nú er byggt á DNA-tækni sem notuð er þegar bóluefni við inflúensu er búið til sem og tækni sem notuð var við gerð bóluefnis gegn svínaflensu.

Þróun bóluefnis gæti skipt Íslendinga miklu máli, rétt eins og heimsbyggðina alla, en menntamálaráðherra sagði í viðtali við Viðskiptamoggann nýverið að afar ósenni­legt væri að opn­ast muni fyr­ir flæði fólks til og frá land­inu fyrr en hægt yrði að bólu­setja fólk fyrir kór­ónu­veirunni. Svein­björn Gizur­ar­son, pró­fess­or í lyfja­fræði við Há­skóla Íslands, tók undir það í Morgunblaðinu í dag.

Munu ekki hagnast á framleiðslunni

Emma Walmsley, forstjóri GSK, lýsir samstarfinu sem „fordæmalausu“ og segir að fyrirtækin muni ekki hagnast beinlínis á framleiðslunni heldur verður því fé sem mögulega fæst fyrir bóluefnið notað í frekari rannsóknir á heimsfaröldrum og undirbúningi fyrir þá.

„Það er óalgengt að tveir stærstu framleiðendur bóluefnanna í heiminum vinni saman. Báðir hafa umtalsverða framleiðslugetu. Við teljum okkur geta framleitt hundruð milljóna skammta fyrir lok næsta árs.“

Paul Hudson, framkvæmdastjóri Sanofi, segir ljóst að samstarf þurfi að koma til svo bóluefni við COVID-19 sé ekki einungis fjarlægur veruleiki.

„Það er augljóst að í þessari alþjóðlegu heilbrigðiskreppu getur ekkert fyrirtæki gert þetta upp á eigin spýtur. Þess vegna heldur Sanofi áfram að bæta við þekkingu sína og úrræði með kollegum okkar, svo sem GSK, með það að markmiði að búa til og veita nægilegt magn bóluefna sem mun hjálpa til við að stöðva veiruna.“

Höfuðstöðvar Sanofi í París.
Höfuðstöðvar Sanofi í París. AFP

Umfang eftirspurnar gríðarlegt

Sanofi, sem hefur höfuðstöðvar í Frakklandi, tilkynnti í febrúar að fyrirtækið ætlaði sér að láta á þróun bóluefnis gegn COVID-19 reyna og hefði tryggt sér stuðning bandarísku heilbrigðisstofnunarinnar. 

Það er afar óvenjulegt að tvö stórfyrirtæki eins og þessi vinni saman í stað þess að keppa við hvort annað en aðstæður eru einnig mjög óvenjulegar. Þörfin fyrir bóluefni fyrir COVID-19 er brýn og umfang eftirspurnarinnar er talið gríðarlegt. 

Bóluefnið sem fyrirtækin þróa nú er byggt á DNA-tækni sem Sanofi notar til að búa til bóluefni við inflúensu. Á vegum GSK er sama tækni nýtt og notuð var í bóluefni við H1N1-faraldrinum 2009 sem gjarnan er þekktur sem svínaflensufaraldurinn. Fyrirtækin treysta því bæði á tækni sem áður hefur verið notuð til að framleiða bóluefni í stórum stíl. 

Höfuðstöðvar GlaxoSmithKline í Bretlandi.
Höfuðstöðvar GlaxoSmithKline í Bretlandi. mynd/GSK

Önnur fyrirtæki komin lengra en framleiðslan er tilraunakenndari

Önnur bóluefnafyrirtæki eru nú þegar komin lengra en samsteypa risanna tveggja. Bandarísku líftæknifyrirtækin Moderna og Inovio eru nú þegar farin að prófa sín bóluefni á fólki en fyrirtækin notast bæði við tilraunakenndari aðferðir við að framleiða bóluefnin en samsteypan. 

GSK og Sanofi hyggjast hefja rannsóknir á seinni hluta þessa árs. Ef vel tekst til gæti bóluefnið verið víða fyrir hendi á seinni hluta næsta árs. 

Richard Hatchett, framkvæmdastjóri Cepi, samtaka sem beita sér fyrir undirbúningi fyrir faraldra og fjármagna þróun átta bóluefna, segir samsetningu fyrirtækjanna lofa góðu. Samstarfið muni verða til þess að bóluefni komist hraðar í hendur þeirra sem á þeim þurfa að halda. 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert