Obama styður Biden

Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir stuðningi við …
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir stuðningi við Joe Biden sem frambjóðanda Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar vestanhafs í nóvember. Biden var varaforseti í forsetatíð Obama. AFP

Barack Obama, forveri Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta, hefur lýst yfir stuðningi við Joe Biden sem frambjóðanda Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fram fara í nóvember. Biden var varaforseti í forsetatíð Obama 2009-2017. 

Í yfirlýsingu sem Obama sendi frá sér í gær hvetur hann sérstaklega stuðningsmenn Bernie Sanders til að styðja Biden. Sanders og Biden kepptust um útnefningu flokksins en Sanders dró framboð sitt til baka fyrir viku. Sanders hefur sjálfur lýst yfir stuðningi við Biden. 

„Besta ákvörðun sem ég hef tekið“

„Að velja Joe Biden sem varaforsetaefni mitt var besta ákvörðun sem ég hef tekið og hann varð náinn vinur minn. Ég trúi að Joe búi yfir öllum þeim eiginleikum sem forseti þarf að búa yfir þessa stundina,“ segir Obama meðal annars í stuðningsyfirlýsingunni. 

Obama hafði hingað til ekki haft afskipti af forvali Demókrataflokksins en gaf sterklega í skyn að hann muni láta til sín taka næstu mánuði. „Sjáumst í kosningabaráttunni,“ segir hann í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert