„Púra greitt“ að Ólafsvaka verður haldin

Enginn hefur látist af völdum veirunnar í Færeyjum.
Enginn hefur látist af völdum veirunnar í Færeyjum. Björn Jóhann

Lát það vera „púra greitt“, að Færeyingar halda sína Ólafsvöku í sumar sem endranær. Ef marka má orð Anniku Olsen, bæjarstjóra í Þórshöfn, verður þessi þjóðhátíð Færeyinga haldin, þó að einhverjar breytingar verði hugsanlega á hátíðarhöldunum.

„Höfum það á hreinu (fær. lát það vera púra greitt) að Ólafsvakan, þjóðhátíð okkar, verður haldin í ár. Hún verður ólík því sem við höfum áður kynnst en ég lofa Færeyingum að við fáum góða Ólafsvöku,“ sagði bæjarstjórinn á tíðindafundi í dag.

Alls kyns viðburðum hefur þurft að fresta vegna aðgerða færeyskra stjórnvalda til að stemma stigu við kórónuveirufaraldrinum, sem hafa þó borið mjög góðan árangur: Aðeins eitt smit hefur greinst í Færeyjum frá 6. apríl og faraldurinn er á hraðri niðurleið. Fótboltalið hófu til dæmis að æfa á ný í dag.

„Flagsdagshaldinu“, sem er hluti af hátíðarhöldunum á Ólafsvöku, verður streymt í beinni útsendingu og þó að mikill fjöldi fólks megi ekki safnast saman lofar bæjarstjórinn að bærinn verði „vel prýddur“ færeyska fánanum.

Í Færeyjum hafa samtals verið 185 smit staðfest, 175 af þeim sjúklingum er batnað og enginn hefur látist svo vitað sé af völdum Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert