Ekkert bendir til þess að fréttir af heilsuleysi Kim séu sannar

Frétt CNN um heilsuleysi Kim Jong Un.
Frétt CNN um heilsuleysi Kim Jong Un. AFP

Stjórnvöld í Suður-Kóreu segja að ekkert bendi til þess að óstaðfestar fréttir um að leiðtogi Norður-Kóreu sé þungt haldinn eftir aðgerð séu sannar. Þetta kemur fram í frétt Washington Post og BBC.

Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN birti í nótt frétt þar að lútandi og hafa einhverjir fjölmiðlar fylgt á eftir en samkvæmt Washington Post er ekkert nýtt að fréttir séu fluttar af heilsufari KimJong Un, leiðtoga Norður-Kóreu vegna offitu hans og reykinga. 

Fréttir af meintu heilsuleysi leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong Un, í …
Fréttir af meintu heilsuleysi leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong Un, í fjölmiðlum. AFP

CNN hefur eftir bandarískum embættismanni sem á að þekkja vel til að stjórnvöld í Washington fylgist með vel með og vísbendingar séu um að vanheilsa Kim sé grafalvarleg. Annar embættismaður segir við CNN að það sé rétt að áhyggjur séu af heilsufari leiðtogans.

Í yfirlýsingu sem Kang Min-seok, talsmaður forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, undirritar kemur fram að embættið hafi ekkert í höndunum sem staðfesti nýlegar fréttir fjölmiðla um heilsuvanda Kim og ekkert óvenjulegt virðist vera í gangi í nágrannaríkinu.

Orðrómur hefur verið uppi um veikindi leiðtogans, sem er 36 ára að aldri, eftir að hann mætti ekki á hátíðarhöld í tilefni af afmælisdegi afa hans,  Kim Il Sung, í Pyongyang á miðvikudag en afar erfitt er að fá fregnir af heilsufari hans staðfestar hjá yfirvöldum í Norður-Kóreu, segir í frétt Washington Post.

Suðurkóreski fréttavefurinn Daily Nk greindi frá því seint í gærkvöldi að Kim væri að jafna sig í húsi sínu í fjöllunum eftir að hafa farið í hjartaaðgerð í síðustu viku. Vefurinn vísar í eina ónafngreinda heimild fyrir fréttinni. En vefsíðan var sett upp af fólki sem hefur flúið land frá Norður-Kóreu.

Bæði CNN og Daily Nk hafa uppfært fréttir sínar af meintum veikindum leiðtoga Norður-Kóreu frá fyrstu útgáfu þeirra. 

Frétt CNBC

Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar lækkaði Nikkei hlutabréfavísitalan um tæp 2% vegna óstaðfestra fregna af heilsuleysi Kim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert