89 lögreglumenn handteknir fyrir brot á samkomubanni

AFP

Á annað hundrað opinberir starfsmenn, þar á meðal 89 lögreglumenn, hafa verið handteknir í Suður-Afríku fyrir að hafa hunsað reglur í tengslum við kórónuveiruna. Margir þeirra fyrir áfengissölu. Þetta kom fram í máli ráðherra lögreglumála, Bheki Cele, á fundi með fjölmiðlum í Durban í dag. Alls hefur 131 verið handtekinn.

Cele segir að margir þeirra lögreglumanna sem hafi verið handteknir hafi verið staðnir að því að selja áfengi sem lögreglan hefur tekið af almenningi.

Yfir 20 þúsund lögreglumenn ásamt hernum taka þátt í eftirliti með hvort fólk fari að reglum í útgöngubanni sem gildir í fimm vikur. Meðal annars er bannað að selja áfengi í Suður-Afríku. Forseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, neitaði í síðustu viku að aflétta áfengissölubanninu þrátt fyrir margar beiðnir þar um. 

Brotist hefur verið inn í nokkrar áfengisverslanir í landinu frá því bannið var sett á í síðasta mánuði. Cele segir að þakka megi áfengissölubanninu að mjög hefur dregið úr ofbeldisglæpum í landinu. 

Allt í allt hafa um 118 þúsund íbúar Suður-Afríku verið kærðir fyrir að brjóta samkomubannið að sögn Cele. Meðal þeirra er ráðherra samskiptamála, Stella Ndabeni-Abrahams, sem í gær greiddi sekt fyrir að hafa hunsað tilskipun um að halda sig heima. Hún hefur verið send í leyfi frá störfum. „Það sleppur enginn undan lögum og þar skiptir engu hver þú ert,“ segir Cele.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert