Ofbeldið er á ábyrgð ofbeldismannsins

AFP

Fréttum af konum og stúlkum sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi hefur fjölgað mjög að undanförnu í rómönsku Ameríku líkt og víðar í heiminum. Hið sama á við um símtöl frá þolendum heimilisofbeldis í hjálparsíma, einstaklingum sem geta ekki flúið undan ofbeldinu.

Baráttufólk gegn heimilisofbeldi varar við því að ofbeldishneigðir menn séu að nýta sér kórónufaraldurinn sem afsökun fyrir því að beita konur ofbeldi. Kórónuveiran beri ekki ábyrgð á því þegar kona verður fyrir ofbeldi heldur ofbeldismaðurinn.

AFP

Í Argentínu hafa átján konur verið drepnar af eiginmanni eða fyrrverandi eiginmanni á fyrstu 20 dögum fyrirskipaðrar sóttkvíar í landinu. Hjálparbeiðnum hefur fjölgað um 40% vegna heimilisofbeldis á sama tíma í landinu. 

„Einangrunin er að varpa þúsundum kvenna í helvíti þar sem þær eru lokaðar inni með árásarmanni sem þær eru hræddari við en kórónuveiruna,“ segir Victoria Aguirre hjá argentínsku mannúðarsamtökunum MuMaLa sem berjast gegn ofbeldi í karllægri menningu.

Cristina Iglesias og sjö ára gömul dóttir hennar Ada, voru drepnar af sambýlismanni Iglesias skömmu eftir að útgöngubannið var sett á í Argentínu 20. mars. Líkamsleifar þeirra fundust grafnar í bakgarði við heimili þeirra í Buenos Aires-héraði í austurhluta landsins nokkrum dögum síðar. 

Samkvæmt argentínskum fjölmiðlum var sambýlismaður hennar, Abel Romero, stöðvaður fyrir að hafa brotið reglur um útgöngubann. Þegar hann var yfirheyrður af lögreglu reyndi hann að ljúga því að þrír menn hefðu drepið mæðgurnar en játaði síðar að hafa stungið þær til bana með eldhúshníf og grafið lík þeirra í garðinum. 

Annars staðar í Argentínu tókst lögreglu að bjarga lífi konu á síðustu stundu eftir að nágranni tilkynnti um ofbeldið. Þegar lögregla kom á staðinn var eiginmaðurinn að berja konu sína með hamri.

AFP

Í fyrra voru 3.800 konur myrtar í rómönsku Ameríku sem er 8% aukning á milli ára, samkvæmt tölum frá CEPAL, upplýsinganefnd Sameinuðu þjóðanna varðandi málefni rómönsku Ameríku og ríkja í Karabíska hafinu 

„Því miður eru margar konur og stúlkur í sérstaklega viðkvæmri stöðu þegar kemur að ofbeldi á stað þar sem þær eiga að vera öruggar — á heimilum sínum,“ segir António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Hann hvetur ríkisstjórnir heimsins til að grípa til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi í tengslum við COVID-19 faraldurinn, segir á vef Sameinuðu þjóðanna.

„Þú óttast að snúa baki í hann. Þar er ekki fyrr en síðar, þegar áverkarnir koma í ljós, að þú gerir þér grein fyrir því að hann hefði getað drepið þig,“ segir Luciana, 25 ára gömul kona sem er þolandi ofbeldis af hálfu fyrrverandi eiginmanns.

AFP

„Á hverjum degi er kona misnotuð, henni nauðgað eða hún barin af eiginmanni eða fyrrverandi á heimili sínu,“ segir Ada Rico, sem starfar með mannúðarsamtökunum La Casa del Encuentro.

Hún segir að í venjulegu árferði myndu samtökin aðstoða viðkomandi við að leggja fram kæru en í dag er málið miklu frekar að forða henni af heimilinu eins fljótt og auðið er.

Ástandið er, samkvæmt umfjöllun AFP, er slæmt í Mexíkó, Brasilíu og Chile. Í Mexíkó hefur neyðarsímtölum fjölgað frá því sóttkví hófst þar 24. mars að sögn Nadine Gasman, sem stýrir Stofnun sem fer með málefni kvenna í Mexíkóborg. 

AFP

Maria Salguero, sem rannsakar ofbeldi gagnvart konum og hefur kortlagt morð á konum í nánum samböndum (femicide) í Mexíkó áætlar að um 200 konur hafi verið myrtar þar í landi frá því ferðafrelsi var skert og samkomubanni var komið þar á. 

Ana Paola var 13 ára gömul þegar henni var nauðgað og hún barin til bana af innbrotsþjófi í byrjuna apríl á heimili hennar í Sonora-ríki í Mexíkó. Mamma hennar hafði farið í matvörubúðina til að birgja upp heimilið vegna útgöngubannsins. Morðinginn náðist nokkrum dögum síðar eftir að hafa reynt að flýja undan lögreglu. Hann hefur verið dæmdur í 70 ára fangelsi. 

AFP

Símtölum í hjálparlínu samtaka sem aðstoða konur sem eru þolendur ofbeldis hefur fjölgað um 60% frá því útgöngubann var sett á í Mexíkó og konum sem hefur verið bjargað af heimilum sínum hjá samtökunum hefur fjölgað um 5%. Í fyrra voru yfir eitt þúsund konur drepnar annað hvort af eiginmönnum eða fyrrverandi eiginmönnum í Mexíkó í fyrra. Svipaða sögu er að segja frá Perú en í fyrra voru slík morð fleiri en undanfarin ár. 

Í Sao Paulo, þar sem flest kórónuveirusmit hafa komið upp í Brasilíu, hefur tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgað um 30% frá því yfirvöld í ríkinu komu á samkomubanni. Í Chile er staðan einnig slæm en þar hefur tilkynningum um heimilisofbeldi til að mynda fjölgað um 500% í Providencia, sem er hástéttarhverfi í höfuðborginni Santiago.

Upplýsingar á covid.is 

Í frétt Huffington Post kemur fram að á fyrstu þremur vikunum eftir að útgöngubann var sett á í Bretlandi hafi heimilisofbeldi kostað 18 konur lífið. Þetta er tvöfalt hærri tala en venjulega og sýnir fram á hættuna sem konur geta staðið frammi fyrir ef þær eru lokaðar inni á heimilum sínum með ofbeldishneigðri manneskju. Morðin 18 voru framin á tímabilinu 23. mars til 12. apríl.

Karen Ingala Smith, stofnandi samtakanna Counting Dead Women, segir í samtali við  HuffPost UK að upplýsingar sem hefur verið safnað undanfarinn áratug bendi til þess að kona sé drepin fjórða hvern dag þar í landi af annað hvort maka eða fyrrverandi maka. Miðað við þessar tölur hefðu konurnar átt að vera sjö þessar þrjár vikur en þess í stað eru þær 16 auk tveggja barna. Hér vanti tvær konur inn í talninguna þar sem menn þeirra hafi verið handteknir en ekki ákærðir. Fórnarlömbin eru á aldrinum tveggja til 82 ára. Í flestum tilvikum eru morðingjarnir makar.

En Smith bendir á að það sé ekki þannig að kórónuveirufaraldurinn hafi skapað fleiri morðingja heldur er ofbeldið á ábyrgð ofbeldisfullra manna ekki veirunnar.  „Það eru aðstæðurnar í kringum okkur sem hafa breyst vegna kórónuveirunnar og það hefur hrint af stað meira ofbeldi karla þrátt fyrir að ég velji að segja að þetta séu afsakanir.“

Frétt Independent

Tekið skal fram að þrátt fyrir að sé talað um ofbeldi gagnvart konum og stúlkum í greininni á þetta einnig við um karla og drengi sem verða fyrir ofbeldi á heimilum sínum. 

mbl.is