Einangrunarmeistarinn Prickles fundin

Hvað heldur þú að ull Prickles sé þung?
Hvað heldur þú að ull Prickles sé þung? Skjáskot/BBC

Ástralska kindin Prickles hefur verið hyllt meistari sjálfseinangrunar eftir að hún fannst á áströlskum bóndabæ eftir sjö ára langa einveru í kjarrskógi skammt frá bóndabæ í Tasmaníu.

Bóndinn Alice Gray segir að líklega hafi Prickles orðið útundan eftir mikla skógarelda ársins 2013 þegar allar girðingar bóndabæjarins brunnu til kaldra kola. Gray telur líklegt að Prickles hafi orðið föst innan lítið notaðs svæðis eftir að ný girðingarnar voru settar upp.

Eins og sjá má á myndskeiði BBC þar sem fjallað er um málið er Prickles orðin ansi mikil um sig og fimm fullorðna þurfti til að koma henni í skott bifreiðar þegar hún fannst.

Prickles lifir nú góðu lífi ásamt öðrum, mun fyrirferðaminni kindum á bóndabænum.

Alice Gray hefur hins vegar ákveðið að láta fund Prickels verða til góðs fyrir fleiri og hefur sett á fót ágiskunarleik þar sem fólki býðst að giska á hversu mikið ull Prickels vegur.

Rúningarmaður hefur verið bókaður 1. maí og þá kemur í ljós hve þung ullin er, en allur ágóði leiksins rennur til flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. „Ef það er einhver hópur fólks sem hefur ekki kost á að einangra sig, eru það flóttamenn,“ segir Gray.

„Ef Prickles getur verið í einangrun í sjö ár held ég að við höfum ekki afsökun til að kvarta yfir því að vera föst heima.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert