Hollenskir minkar með kórónuveiruna

Hér má sjá annað minkabúið en landbúnaðarráðherra landsins ráðlagði fólki …
Hér má sjá annað minkabúið en landbúnaðarráðherra landsins ráðlagði fólki að halda 400 metra fjarlægð frá búunum tveimur. AFP

Hollensk yfirvöld lokuðu í dag tveimur minkabúum í suður-Hollandi eftir að rannsóknir sýndu að minkar höfðu smitast af kórónuveirunni, líklega af snertingu við mannfólk. 

Búin eru staðsett í norðanverðu Brabant héraði sem er eitt af þeim héruðum sem orðið hefur hvað verst úti í faraldrinum. Þar hafa 37.000 smitast og um 4.400 fallið frá vegna veirunnar. 

„Minkarnir sýndu ýmis einkenni sjúkdómsins, þar á meðal áttu þeir erfitt með öndun,“ segir í yfirlýsingu frá hollenska landbúnaðarráðuneytinu. 

Engin hætta á að dýrin smiti mannfólk

Prófanir á dýrunum leiddu svo í ljós að þau þjáðust af COVID-19. „Þar sem nokkrir starfsmenn minkabúanna höfðu einkenni veirunnar er talið að þeir hafi smitað dýrin,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu. 

„Eins og er er ekkert sem bendir til þess að hús- eða heimilisdýr hafi breytt veiruna út á meðal mannfólks og engin hætta á því að minkarnir muni smita mannfólk. Smit frá manni til manns er það sem keyrir útbreiðslu veirunnar áfram.“

Lokaði þjóðvegi nærri búunum

Í kjölfar þess að smitin voru staðfest fyrirskipaði Carola Schouten, landbúnaðarráðherra Hollands, að loka ætti þjóðvegi nálægt minkabúunum og ráðlagði fólki að halda 400 metra fjarlægð frá þeim.

Schouten mældist einnig til þess að minkabændur tilkynntu yfirvöldum ef öndunarfæravandamál kæmu upp hjá minkum þeirra eða ef stökk yrði í minkadauða. 

Ræktun minka í Hollandi hefur verið umdeild á síðustu árum. Árið 2016 fyrirskipaði æðsti dómstóll landsins að allri minkarækt skyldi hætt fyrir árið 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert