200 húsnæðislausir eftir eldsvoða

Flóttamannabúðir á Samos.
Flóttamannabúðir á Samos. AFP

Um 200 hælisleitendur í flóttamannabúðum á grísku eyjunni Samos eru nú án húsnæðis eftir að eldur kom upp í búðunum í gærkvöldi. Rekja má eldsvoðann til deilna milli íbúa í búðunum að sögn ráðherra flóttamannamála, Manos Logothetis.

Að sögn lögreglu kviknaði nýr eldur í búðunum í dag og er hann einnig afleiðing milli ólíkra hópa í búðunum. Lögregla á Samos segir að deilurnar séu á milli þeirra sem eru arabískumælandi í búðunum og fólki frá Afríku. Eldurinn kviknaði um miðnætti í gær en í dag hefur deilan milli hópa magnast enn frekar. 

Óeirðalögregla var send á vettvang og handtók hún sjö manns. Flóttamannabúðirnar áSamos eru yfirfullar af fólki en þar eru nú um sjö þúsund manns í húsnæði ætlað 650 manns. Þannig að lítið þarf að koma upp til að átök blossi upp á milli fólks þar sem skortur er á öllum nauðsynjum. 

Flóttamannabúðirnar á Chios.
Flóttamannabúðirnar á Chios. AFP

Gríska ríkisstjórnin hafði tilkynnt um að rúmlega 2.300 manneskjur yrðu fluttar úr búðunum til meginlandsins, einkum eldra fólk og veikburða, en ekkert hefur orðið af flutningum vegna kórónuveirunnar. Engin staðfest smit hafa komið upp í flóttamannabúðum á grísku eyjunum í Eyjahafi, það er Lesbos, Chios, Samos, Leros og Kos. Aftur á móti hafa komið upp smit í tveimur flóttamannabúðum skammt fyrir utan Aþenu og eins á hótelum sem hýsa fólk sem hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd. 

Í öðrum eldsvoða í flóttamannabúðum á Chios fyrr í mánuðinum varð skrifstofa hælisumsókna eldinum að bráð, eldunaraðstaða, tjöld sem hýstu vörubirgðir og margir búsetugámar. Þar kviknaði eldurinn í átökum sem blossuðu upp þegar 47 ára gömul kona lést í búðunum. Vildu íbúarnir meina að hún hefði verið smituð af kórónuveirunni en yfirvöld segja að það sé ekki rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert