Biden hafnar ásökunum

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

Demókratinn Joe Biden, sem væntanlega verður forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hafnar alfarið ásökunum um að hafa beitt fyrrverandi samstarfskonu kynferðisofbeldi fyrir 27 árum. „Þetta er ekki satt. Þetta gerðist aldrei,“ segir Biden í yfirlýsingu og vísar þar í ásakanir Tara Reade en hún starfaði á skrifstofu hans.

Reade, sem er 56 ára, sagði í hlaðvarpi í mars að öldunadeildarþingmaðurinn fyrrverandi að hafa sett hendurnar inn undir pils hennar og brotið gegn henni. Hún hefur síðan ítrekað þetta í viðtölum og tilkynnt um þetta til lögreglu í Washington í byrjun apríl. AFP — sem hefur séð skýrsluna — segir að þar sé Biden ekki nafngreindur.

Biden kom fram í morgunsjónvarpi í dag þar sem hann sagði að þetta væri ekki rétt. „Ég veit ekki hvers vgna eftir 27 ár er þetta allt í einu nefnt. En ég ætla ekki að velta upp spurningunni um hver tilgangur hennar er. Ég ætla ekki að ráðast á hana.“

Reade hefur ekki sýnt kvörtun sem hún segist hafa lagt fram árið 1993 og Biden hefur sagt að hann hafi beðð um að leitað verði á Þjóðskjalasafninu til að komast að því hvort slík kvörtun er til.

Joe Biden hefur sett nefnd á laggirnar, sem á að aðstoða hann við að finna væntanlegt varaforsetaefni sitt og um leið kanna bakgrunn þeirra sem koma til greina.

Biden hefur heitið því að meðframbjóðandi sinn verði kvenkyns. Sú yrði þá önnur konan á eftir Geraldine Ferraro, meðframbjóðanda Walters Mondales 1984, til að bjóða sig fram í embætti varaforseta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert