5.000 látist — „Og hvað með það?“

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Ummæli Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar á þriðjudag hafa vakið athygli og reiði ríkisstjóra, stjórnmalamanna og heilbirgðisstarfsfólks fyrir skort á samkennd. 

Forsetinn var á fundinum spurður út í þá staðreynd að 5.000 væru látnir af völdum veirunnar í landinu. „Og hvað með það? Hvað viltu að ég geri í því?“ svaraði forsetinn og bætti við í gríni að þótt millinafn hans væri Messías (forsetinn heitir fullu nafni Jair Messias Bolsonaro) þá gæti hann ekki framkvæmt kraftaverk.

Síðan þá hefur dauðsföllum aðeins fjölgað og eru nú 6.300. Þá hafa 91.000 tilfelli kórónuveirunnar verið staðfest í Brasilíu, sjötta fjölmennasta landi heims, en vísindamenn óttast að raunverulegur fjöldi smita geti verið 15-20 sinnum hærri.

Útlitið er enn svartara sé litið til þess að svo virðist sem vikur séu í að toppi faraldursins verði náð. Gæti tala látinna þá náð Bandaríkjunum og Ítalíu, tveimur löndum sem hafa farið illa út úr faraldrinum.

Ólíkt mörgum þjóðarleiðtogum hefur Bolsonaro ekki heimsótt neina kórónuveirusjúklinga á spítölum eða sýnt samkennd með fórnarlömbum veirunnar, ættingjum þeirra eða heilbrigðisstarfsfólki. „Bolsonaro sýnir harmleik fjölskyldna fórnarlamba lítill skilning. Hans stjórnunarstíll er járnhnefinn; að vera harður frekar en að sýna samstöðu og hluttekningu,“ segir Lucio Renno, deildarforseti stjórnmálafræðideildar Háskólans í Brasilíuborg í samtali við AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert