Skýrsla varpi ljósi á yfirhylmingu Kínverja

Xi Jinping, forseti Kína, bar grímu er hann heimsótti sjúklinga …
Xi Jinping, forseti Kína, bar grímu er hann heimsótti sjúklinga í Wuhan í mars. AFP

Kínversk stjórnvöld leyndu og eyddu gögnum um útbreiðslu kórónuveirunar með þeim afleiðingum að tugir þúsunda létu lífið.

Þetta eru niðurstöður skýrslu sem unnin var að undirlagi leyniþjónustubandalagsins Five Eyes, sem samanstendur af leyniþjónustum og njósnastofnunum Bandaríkjanna, Ástralíu, Nýja-Sjálands, Kanada og Bretlands.

Ástralska blaðið Telegraph greinir frá þessu, en það hefur skýrsluna, sem er 15 síður að lengd, undir höndum.

Á meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er að stjórnvöld í Kína hafi um hríð neitað því að smit gæti borist milli manna þrátt fyrir að þeim mætti vera það fullljóst. Fimm dögum eftir að karlmaður greindist með einkenni lungnasjúkdómsins, sem nú nefnist COVID-19, eftir að hafa verið á matarmarkaði í Wuhan-borg, smitaðist kona hans af sjúkdómnum, sem hefði átt að benda til þess að veiran smitaðist milli manna.

Í skýrslunni er einnig minnst á tilraunir kínverskra stjórnvalda til að þagga niður í erlendum rannsakendum. Þannig hafi Kínverjar reynt, og tekist, með hótunum að hafa áhrif á skýrslu Evrópusambandsins um uppruna veirunnar. Sömuleiðis hafi Kínverjar hótað að hætta viðskiptum við Ástrali ef ráðist yrði í rannsóknir á útbreiðslunni, og haft í hótunum við Bandaríkin.

Nokkrar lykildagsetningar í yfirhylmingu Kínastjórnar:

Á nýársdag voru átta læknar, sem vöruðu við hinum nýja vírusi, handteknir og fordæmdir fyrir ummæli sín.

5. janúar hættu heilbrigðisyfirvöld í Wuhan að gefa út daglegar uppfærslur á fjölda tilfella. Var ekki byrjað á því aftur fyrr en 18. janúar.

10. janúar greindi Wang Guangfa, háttsettur embættismaður innan stjórnkerfis Kína, frá því að náðst hefði stjórn á útbreiðslu veirunnar og henni fylgdu að mestu „væg einkenni“.

12. janúar lokuðu yfirvöld rannsóknarstofu Zhang Yongzhen prófessors í Sjanghæ, en hann hafði degi áður deilt erfðarannsóknum á veirunni með umheiminum.

14. janúar varaði yfirmaður Heilbrigðisstofnunar Kína, Ma Ziaowei, samstarfsmenn sína á laun við því að líklegt væri að veiran myndi þróast í meiriháttar heilbrigðisógn.

24. janúar meinuðu yfirvöld í Peking rannsakendum við rannsóknarstofnunina í veirufræðum í Wuhan að deila veirusýnum með Háskólanum í Texas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert