15 börn á sjúkrahúsi vegna veirutengdra veikinda

AFP

Fimmtán börn í New York borg hafa verið lögð inn á sjúkrahús vegna einkenna sem talin eru tengjast kórónuveirunni. 

Börnin eru á aldrinum 2 til 15 ára og voru lögð inn á sjúkrahús á tímabilinu 17. apríl til 1. maí að því er fram kemur í tilkynningu heilbrigðismálayfirvalda í New York. Nokkur barnanna greindust í kjölfarið með COVID-19, en einkennin eru nokkuð frábrugðin einkennum fullorðinna. 

Sum barnanna sýndu einkenni sem svipar til einkenna kawasaki-sjúkdómsins, en sjúkdómurinn veldur bólgum í slagæðum og getur takmarkað blóðflæði til hjartans. Fimm barnanna voru sett í öndunarvél og helmingur þeirra þurfti úrræði við háum blóðþrýstingi. Enn sem komið er hefur enginn látist. 

Svipuð tilfelli hafa komið upp á barnaspítala í Kaliforníu eftir því sem fram kemur í frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert