200 manns á fjarfundi um fríverslunarsamning

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Donald Trump Bandaríkjaforseti í London …
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands og Donald Trump Bandaríkjaforseti í London í desember, þegar enn mátti heilsast með handabandi. AFP

Bresk og bandarísk stjórnvöld hefja í dag viðræður um fríverslunarsamning milli ríkjanna eftir að hið fyrrnefnda gekk úr Evrópusambandinu fyrr á árinu. 

Hundrað manns frá hvoru ríki taka þátt í viðræðunum, sem búist er við að taki nokkrar vikur, og fara þær alfarið fram í gegnum fjarfundabúnað sökum kórónuveirufaraldursins. 

Margir innan raða ríkisstjórnar Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, telja fríverslunarsamning við Bandaríkin einn af betri kostum eftir útgöngu úr Evrópusambandinu. Ef samningurinn gengur eftir mun hann skipta sköpum í efnahagslegri viðspyrnu vegna afleiðinga kórónuveirunnar að mati Woody Johnson, sendiherra Breta í Bandaríkjunum. Liz Truss, undirráðherra í breska fjármálaráðuneytinu, tekur í sama streng. 

Bresk yfirvöld krefjast aukins aðgengis breskra fjármálafyrirtækja að bandarískum mörkuðum sem og að samningurinn veiri útflutningsfyrirtækjum hagstæð skilyrði. 

Viðskiptaviðræðum Breta við Evr­ópu­sam­bandið í kjöl­far Brex­it er hvergi nærri lokið. Þegar Bret­ar yf­ir­gáfu ESB 31. janú­ar ákváðu báðir aðilar að aðlög­un­ar­ferli stæði yfir til 31. des­em­ber. Klukk­an tif­ar og enn sem komið er hef­ur lítið þokast áfram í þeim viðræðum sem farið hafa fram. 

Michael Barnier, aðalsamningamaður ESB, segir enn möguleika á að ná samkomulagi en það verði erfitt þar sem Johnson hefur neitað að framlengja viðræður fram yfir áramót.

mbl.is

Bloggað um fréttina