Engin merki um að Kim hafi lagst undir hnífinn

Orðrómur þess efnis að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, væri heilsuveill …
Orðrómur þess efnis að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, væri heilsuveill eða jafnvel allur fóru á flug eftir að Kim var ekki viðstaddur afmælishátíð afa síns 15. apríl. Í síðustu viku kom hann fram við opn­un nýrr­ar áburðaverk­smiðju í heima­land­inu og var það í fyrsta skipti í 20 daga sem sást opinberlega til leiðtogans. AFP

Ekkert er til í þeim sögusögnum um að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hafi gengist undir hjartaaðgerð nýlega. Þetta fullyrðir leyniþjónusta Suður-Kóreu. 

Orðrómur þess efnis að leiðtoginn væri heilsuveill, eða jafnvel allur, fór á flug eftir að Kim var ekki viðstaddur afmælishátíð afa síns 15. apríl. Í síðustu viku kom hann fram við opn­un nýrr­ar áburðaverk­smiðju í heima­land­inu og var það í fyrsta skipti í 20 daga sem sást opinberlega til leiðtogans. 

Forstjóri suður-kóresku leyniþjónustunnar kom fyrir þingnefnd í dag þar sem hann sagði ekkert benda til þess að heilsu Kim væri farið að hraka. Hann hefur þó einungis komið 17 sinnum fram opinberlega á þessu ári, en vanalega væru skiptin um 50 um þetta leyti árs. 

Kim Byung-kee, þingmaður á suður-kóreska þinginu benti á að ástæðuna mætti rekja til kórónuveirufaraldursins, jafnvel þótt engin tilfelli hafi verið opinberlega staðfest í Norður-Kóreu. „Það er ekki hægt að útiloka að faraldurinn hafi breiðst út í Norður-Kóreu,“ segir þingmaðurinn. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kim hverfur af sjónarsviðinu um tíma. Árið 2014 sást ekki til hans í 40 daga áður en hann dúkkaði upp á ný, en studdist þá við staf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert