Verra en árásirnar á Pearl Harbor og turnana

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að kórónuveirufaraldurinn sé „versta árás“ sem hefur verið gerð á Bandaríkin, enn verri en árás Japana á Pearl Harbor í seinni heimsstyrjöldinni og hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001.

Hann segir að bandaríska ríkisstjórnin sé að íhuga refsiaðgerðir gegn Kínverjum vegna þess hvernig þeir brugðust við kórónuveirunni er hún var að brjótast út.

Stjórnvöld í Peking segja að Bandaríkjamenn vilji afvegaleiða umræðuna frá eigin viðbrögðum við veirunni.

Frá því að veiran greindist fyrst í kínversku borginni Wuhan í desember eru staðfest smit í Bandaríkjunum orðin 1,2 milljónir talsins. Meira en 73 þúsund manns hafa látist.

„Við gengum í gegnum verstu árásina sem við höfum nokkru sinni orðið fyrir á okkar þjóð, þetta er versta árásin sem við höfum lent í,“ sagði Trump í Hvíta húsinu, að því er BBC greindi frá.

„Þetta er verra en Pearl Harbor, þetta er verra en World Trade Center. Það hefur aldrei verið gerð önnur eins árás,“ bætti hann við.

„Þetta hefði aldrei átt að gerast. Það hefði verið hægt að stöðva þetta strax í upphafi. Það hefði verið hægt að stöðva þetta í Kína. Það hefði átt að stöðva þetta í upphafi og það var ekki gert.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert