Fjölmenn mótmæli í Þýskalandi

Fleiri þúsundir söfnuðust saman í Stuttgart um helgina til að …
Fleiri þúsundir söfnuðust saman í Stuttgart um helgina til að mótmæla aðgerðum þýskra stjórnvalda vegna kórónuveirunnar. AFP

Á Alexanderplatz í Berlín í gær voru um 1200 manns samankomnir í miðju samkomubanni til þess að mótmæla, einmitt, samkomubanni. Og öðrum ráðstöfunum þýskra stjórnvalda gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Lögreglan í Berlín kvað hafa handtekið hátt í 90 manns og það sama var uppi á teningnum um allt Þýskaland. Mestu mótmælin urðu í Stuttgart, þar sem fleiri þúsundir komu saman, og sömuleiðis voru taldir 3000 á Maríutorgi á München.

Verið er að mótmæla takmörkunum stjórnvalda á lífi og réttindum borgaranna og hópurinn sem sameinast um þetta baráttumál er ærið misleitur. Fylkingin nær lengst frá vinstri og lengst til hægri, frá vegan aðgerðasinnum og róttæku verkalýðsbaráttufólki til þjóðernishópa og öfgahægrimanna, eins og segir hjá Tagesspiegel.

Litríkur hópur

Á meðal mótmælenda eru að sögn Spiegel ýmsir þjóðkunnir samsæriskenningamenn. „Ekki gefa Gates tækifærið,“ sagði þannig á einu skiltinu, en sem kunnugt er fást menn á vegum Bill Gates við að þróa bóluefni gegn þessari veiru og öðrum.

Alls kyns hugmyndum ægir saman á mótmælunum og ekki eitt skýrt markmið. Þannig kyrjuðu Berlínarmótmælendur „Wir sind das Volk“ sem vísar til mótmælanna sem mynduðust undir lok þýska alþýðulýðveldisins 1989 og leiddu að lokum til falls Berlínarmúrsins. Næsti maður var síðan að mótmæla bólusetningum yfirleitt og þótti þessi vettvangur ekki verri en annar.

Í Þýskalandi hafa um 7500 látist af völdum kórónuveirunnar en samtals um 170 þúsund manns greinst með veiruna. 138.000 er þegar batnað. Í stjórnmálunum er hart tekist á um afléttingar sóttvarnaaðgerða og hvert sambandsland fyrir sig ræður hvernig þeim málum er háttað, þó að viðmið séu gefin út af landsstjórninni. Í Þýskalandi kom ekki til sömu róttæku aðgerða og hjá öðrum stórþjóðum, til dæmis var aldrei sett á útgöngubann, þó að vissulega hafi hópastærð utandyra verið takmörkuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert