230 mótmælendur handteknir í Hong Kong

Til átaka kom á milli mótælenda og lögreglunnar í gær.
Til átaka kom á milli mótælenda og lögreglunnar í gær. AFP

Lögreglan í Hong Kong handtók hundruð manna, þar á meðal tólf ára dreng, um síðastliðna helgi í fyrstu mótmælum almennings gegn stjórnvöldum síðan kórónuveiran braust út.

Á sunnudaginn, tveimur dögum eftir að samkomubanni var aflétt að hluta til og barir og íþróttasalir máttu opna aftur, lenti lögreglan í átökum við mótmælendur í mörgum verslunarmiðstöðvum.

Síðar beitti hún piparúða og kylfum gegn mótmælendum, fólki sem stóð og fylgdist með og blaðamönnum í hverfinu Mong Kok.

Mótmælandi handtekinn í Hong Kong.
Mótmælandi handtekinn í Hong Kong. AFP

Að sögn lögreglunnar voru 230 handteknir á aldrinum 12 til 65 ára. Fólkið var kært fyrir ýmis afbrot, þar á meðal fyrir að brjóta reglur um samkomubann. Í því felst að ekki mega fleiri en átta koma saman á almannafæri.

Heilbrigðisyfirvöld greindu frá því að 18 hefðu verið fluttir á sjúkrahús.

mbl.is