Djammið dregur dilk á eftir sér

Alls hafa 86 ný kórónuveirusmit í Suður-Kóreu undanfarna daga verið rakin til næturlífsins og í fyrstu var talið að rekja mætti þau öll til 29 ára gamals manns sem náði að heimsækja fimm næturklúbba og bari í Itaewon-hverfinu í Seúl í byrjun maí áður en hann greindist með smit. Svo virðist ekki vera heldur telur sóttvarnalæknir að upptökin séu fleiri. 

Yfirvöld í Suður-Kóreu greindu frá því að 35 ný smit hafi verið greind síðasta sólarhringinn og hafa þau ekki verið svo mörg í meira en mánuð. Alls eru staðfest smit 10.909 í landinu. Nánast engin smit hafa verið greind í landinu frá því í byrjun maí og þau örfáu sem hafa greinst hafa flest verið tengd fólki sem er að koma erlendis frá. 

Jeong Eun-kyeong, sóttvarnalæknir Suður-Kóreu, sagði á fundi með blaðamönnum í dag að um sé að ræða hópsmit tengd ólíkum skemmtistöðum og dagsetningum.

Smitrakningarteymi stjórnvalda er að reyna að finna þúsundir einstaklinga sem fóru á næturklúbba og bari í Itaewon, segir forsætisráðherra landsins, Chung Sye-kyun.

Chung segir að erfitt sé að hafa upp á öllu þessu fólki og hvetur alla þá sem fóru út að skemmta sér til að fara í sýnatöku. „Ef þú hikar í einn dag getur okkar daglega líf stöðvast í mánuð. Vinsamlegast hafi samband við næstu heilsugæslustöð strax,“ segir Chung.

Borgaryfirvöld í Seúl hvetja alla sem heimsóttu Itaewon á tveggja vikna tímabili til að fara í sýnatöku. 

Horft hefur verið til Suður-Kóreu sem fyrirmynd annarra ríkja um hvernig eigi að takast á við kórónuveiruna en gripið var til þess ráðs um helgina að loka aftur skemmtistöðum vegna nýrra smita. Óttast er að önnur bylgja veirunnar sé að ríða yfir landið en í síðustu viku var dregið mjög úr reglum sem giltu varðandi samkomubann og nýttu margir sér það til hins ýtrasta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert