Frakkar undanþegnir sóttkví

AFP

Franskir farþegar þurfa ekki að fara í sóttkví þegar þeir koma til Bretlands líkt og aðrir útlendingar samkvæmt samkomulagi sem ríkisstjórnir landanna tveggja hafa undirritað.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að gripið verði til þess að senda alla þá sem koma til landsins í sóttkví til þess að koma í veg fyrir að COVID-19-veiran berist til landsins erlendis frá. Eftir að hafa greint frá þessu staðfesti Johnson að ríkisstjórn hans og franska ríkisstjórnin hefðu gert með sér samkomulag um að vinna að sameiningu að aðgerðum á landamærum ríkjanna. 

Johnson hefur ekki greint frá því hvenær sóttkvíarreglurnar taka gildi en bresk flugfélög segja að allir þeir sem kæmu til landsins yrðu að vera viðbúnir því að fara í tveggja vikna sóttkví og að þeir yrðu að vera undir það búnir að gefa upp heimilisfangið þegar þeir koma til landsins. 

Heimildir BBC innan úr ríkisstjórninni herma að þeir sem koma frá Írlandi þurfi ekki heldur að fara í sóttkví þegar þeir koma til Bretlands. 

Boris Johnson mun fara nánar út í þær reglur sem munu gilda áfram í Bretlandi, og hvernig verði staðið að afléttingu, í þinginu í dag. Í gær sagði hann að útgöngubannið muni gilda til 1. júní. 

mbl.is

Bloggað um fréttina