Munnhjóst við blaðamann og sleit fundi

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sleit daglegum blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar eftir að hann og fréttamaður CBS munnhjuggust um ummæli Trumps um stöðu Bandaríkjanna. 

Weijia Jiang, fréttakona CBS News, spurði Trump hvers vegna hann héldi áfram að halda því fram að Bandaríkin stæðu sig betur en önnur ríki þegar kæmi að sýnatöku vegna kórónuveirunnar. „Hvers vegna skiptir það máli?“ spurði Jians. „Hvers vegna er þessi endalausi alþjóðlegi samanburður á sama tíma og Bandaríkjamenn eru að deyja?“

„Þeir eru að deyja hvar sem er í heiminum,“ svaraði Trump. „Og kannski er það spurning sem þú ættir að spyrja Kína. Ekki spyrja mig, spurðu Kína þeirrar spurningar, allt í lagi?“ svaraði Trump. 

Jians, sem er skráð á Twitter sem kínversk en fædd í Vestur-Virginíu, þrýsti áfram á Trump. „Herra, hvers vegna ert þú að beina þessu sérstaklega til mín?“ og ýjaði þar að því að Trump vísaði þar til uppruna hennar. „Ég segi þetta við hvern þann sem spyr illkvittinna spurninga sem þessarar,“ svaraði Trump. 

Hann reyndi síðan að beina athyglinni að öðrum fréttamanni en Jians hélt áfram að þrýsta á Trump vegna viðbragða hans. Fyrst kallaði hann að annarri fréttakonu en án þess að hún næði að svara kallaði hann á einhverja aðra. Þegar sú fréttakona reyndi að spyrja forsetann ákvað Trump skyndilega að slíta blaðamannafundinum og gekk inn í Hvíta húsið, að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar.

Líkt og oft áður voru samfélagsmiðlar ekki lengi að bregðast við og fór myllumerkið #StandWithWeijiaJiang fljótlega af stað á Twitter.

April Ryan, fréttamaður og stjórnmálaskýrandi á CNN, sem hefur ítrekað átt í orðaskaki við Trump, skrifaði á Twitter: „Velkomin í klúbbinn! Þetta er sjúkt! Þetta er ávani hjá honum!“

Yfir 80 þúsund hafa dáið af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum en rúmlega 1,3 milljónir smita hafa verið staðfest í landinu. Hvergi í heiminum eru smit jafn mörg og í Bandaríkjunum og einnig dauðsföll af völdum COVID-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert