Norðmenn galopna olíubaukinn

Norska ríkisstjórnin hefur opnað olíusjóð þjóðarinnar upp á gátt í …
Norska ríkisstjórnin hefur opnað olíusjóð þjóðarinnar upp á gátt í þeirri von að koma norsku hagkerfi heilu og höldnu gegnum þær hremmingar sem það nú sætir vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Shutterstock

Norðmenn hyggjast nota 420 milljarða norskra króna úr olíusjóði sínum, jafnvirði rúmlega 6.000 milljarða íslenskra króna, til að koma landi og þjóð gegnum hinn dimma dal kórónuveirufaraldursins sem dundi á heimsbyggðinni á öndverðu árinu og heldur stórum hlutum hennar enn í heljargreipum.

Aldrei hefur önnur eins upphæð verið tekin út úr sjóðnum í 24 ára sögu hans, en það var árið 1996 sem fyrstu olíupeningarnir voru lagðir inn í sjóðinn, sex árum eftir að Stórþingið hafði samþykkt lög um stofnun hans árið 1990. Staða olíusjóðsins þegar þetta er skrifað er nálægt 10.300 milljörðum norskra króna svo heildarbjörgunarpakkinn vegna kórónuveirunnar nemur fjórum prósentum hans.

„Höfum fengið á okkur slagsíðu“

Jan Tore Sanner fjármálaráðherra kynnti í Stórþinginu í dag viðamiklar breytingar á fjárlögum ríkisins, statsbudsjettet, fyrir 2020 sem reyndar eru ekki formlega séð lög í Noregi heldur fjárhagsáætlun sem Stórþingið afgreiðir í desember hvert ár fyrir næsta ár á eftir með heimild í stjórnarskrá.

„Á okkar tíð hefur hagur þjóðarinnar að mestu leyti haft góðan byr, en nú hefur vindáttin snúist og við höfum fengið á okkur slagsíðu,“ sagði Sanner í ávarpi sínu til þingheims í dag.

Til að tæpa á stóru línunum í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar renna 240 milljarðar (3.437 milljarðar ISK) til atvinnulífsins í formi lána og annarrar aðstoðar til fyrirtækja sem eiga í vök að verjast, 100 milljarðar (1.432 milljarðar ISK) koma í stað skatttekna frá olíuiðnaðinum sem hefur fengið skattgreiðslum sínum til ríkisins frestað, 60 milljarðar (859 milljarðar ISK) fara í að mæta tapi vegna skatta og gjalda sem ríkissjóður verður af vegna skertrar starfsemi atvinnulífsins og stóraukinna bótaútgjalda, fyrirtæki í útflutningi fá 20 milljarða (286 milljarða ISK), heilbrigðisgeirinn fær sex milljarða (86 milljarða ISK), flugvellirnir fimm milljarða (71,6 milljarða ISK), almenningssamgöngukerfið 2,5 milljarða (36 milljarða ISK) og ferðaskrifstofur tvo milljarða (28,6 milljarða ISK) til að standa straum af endurgreiðslum pakkaferða til viðskiptavina sem komast ekki í ferðirnar sínar. Listinn heldur áfram, íþróttafélög fá sitt, menntakerfið, stuðningskerfi fyrir aðþrengd börn og ungmenni, vinnumálastofnunin NAV og fleiri.

Sultarólin hert

Kari-Due Andresen, yfirhagfræðingur Handelsbanken, telur útspil ríkisstjórnarinnar helgast af nauðsyn. „Við munum nota mjög stórar upphæðir núna sem er skynsamlegt svo þessi kreppa verði ekki dýpri en þörf krefur, en það táknar líka að við munum þurfa að herða sultarólina eftir á því ríkið mun ekki geta leyft sér sömu útgjöld og venjulega,“ segir Andresen.

Sanner fjármálaráðherra tekur í sama streng. „Við notum það sem við þurfum til að koma okkur í gegnum þennan öldudal en við verðum líka að gæta þess að næstu kynslóðar bíði ekki svimandi reikningur vegna þessa,“ segir ráðherra.

Atvinnuleysi í Noregi nemur nú 14 prósentum sem er mesta atvinnuleysi í landinu síðan á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar þegar það var hernumið af Þjóðverjum í fimm ár samfleytt.

Cecilie Langum Becker, hagfræðingur og álitsgjafi norska ríkisútvarpsins NRK innan þeirrar fræðigreinar, heimsótti fréttamyndverið í aðalfréttatíma sjónvarpsins í kvöld og sagði olíupeningana tvíeggjað sverð. Sagði Becker að ríkisstjórnin færi nú þá leið að dæla björgunarpeningum út í samfélagið til að halda því gangandi þar sem helsta áhyggjuefnið væri að það atvinnuleysi sem þjóðin nú stendur frammi fyrir væri komið til að vera um lengri tíma.

Ekki bara hægt að treysta á olíupeninga

„Við getum ekki bara treyst á að olíupeningarnir einir bjargi okkur nú þegar olíuverð hefur hrunið svo sem raun ber vitni, það hrun skerðir tekjur okkar auk þess sem við erum um þessar mundir að tapa fjölda starfa í þeirri grein sem er okkar helsta lífæð,“ sagði Becker og vísaði til uppsagna og tímabundinnar starfsskerðingar, svokallaðrar permitteringar, mörg þúsund starfsmanna í olíugeiranum en í mars sendi olíuverkfræðifyrirtækið Aker Solutions öllum 6.000 starfsmönnum sínum í Noregi tilkynningu um að þeir mættu búast við að sæta því úrræði sem í versta falli felur í sér að fólk situr heima með aðeins hluta af venjulegum tekjum sínum.

„Við tökum nú þá áhættu að norskt hagkerfi verði háð ríkisaðstoð og beri sig ekki af eigin rammleik og þegar við sjáum til sólar eftir þessar þrengingar munum við standa frammi fyrir nákvæmlega sömu vandamálum og við gerðum fyrir þær, tímabili sem einkennist af lægri tekjum og hærri opinberum útgjöldum, til dæmis vegna hækkandi lífaldurs í þjóðfélaginu [n. eldrebølgen]. Svo nú er spurningin bara hvort stjórnmálamennirnir vilji nota tækifærið og hrinda hagkerfinu inn í breytingar, skapa fleiri störf og renna fleiri stoðum undir þjóðfélagið,“ sagði Becker undir lokin.

NRK

Sjónvarpsfréttatími NRK í  kvöld

Dagsavisen

E24

Staða olíusjóðsins núna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert