Talsmaður Pútín með kórónuveiruna

Smitum fjölgar jafnt og þétt í Rússlandi, en Dmitry Peskov …
Smitum fjölgar jafnt og þétt í Rússlandi, en Dmitry Peskov er einn þeirra sem smitast hafa. AFP

Um 232 þúsund tilfelli af kórónuveirunni hafa verið staðfest í Rússlandi, en aðeins hafa fleiri smit verið staðfest í Bandaríkjunum. Síðastliðinn sólahring voru tæplega 11 þúsund smit staðfest og var það tíundi sólarhringurinn í röð þar sem staðfest smit eru yfir 10 þúsund. Á meðal þeirra sem greinst hafa er Dmitry Peskov, talsmaður Vladimirs Pútín, forseta landsins. Áður hafði forsætisráðherra landsins, Mikhail Mishustin, greinst með veiruna. BBC greinir frá.

Þrátt fyrir stöðuga fjölgun smita var létt á aðgerðum vegna kórónuveirunnar í Rússlandi í gær. Starfsmenn verksmiðja og í byggingariðnaði fengu að snúa aftur til starfa. En aðgerðum á einstaka svæðum verður háttað eftir því hvernig smitum vindur fram.

Aðeins hafa 2.116 dauðsföll verið skráð vegna veirunnar í Rússlandi og vilja yfirvöld þar í landi meina að það sé vegna þess hve mörg sýni eru tekin. Margir telja hins vegar að dánartalan sé mun hærri en gefin hefur verið upp.

Fimm kórónuveirusjúklingar létust í eldsvoða á gjörgæsludeild í Pétursborg í nótt er skammhlaup varð í öndunarvél á deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert