Segir kynþáttafordóma hafa búið að baki morðinu

Wanda, móðir Ahmaud.
Wanda, móðir Ahmaud. AFP

Móðir Ahmaud Arbery, bandarísks karlmanns sem var skotinn til bana þegar hann var úti að hlaupa í febrúar, segist trúa því að réttlætið sigri. 

Arbery, 25 ára, var myrtur af hvítum feðgum, en fjölskylda Arbery segir að morðið á Arbery hafi verið vegna kynþáttafordóma. 

„Hann var hörundsdökkur Bandaríkjamaður, hann var úti að hlaupa í hverfi sem er að stærstum hluta hvítt, hann var skotmark vegna hörundslitar hans,“ segir móðir Arbery, Wanda Cooper-Jones, í viðtali við BBC

Gregory og Travis McMichael voru handteknir og ákærðir fyrir morð í síðustu viku. Nú er til skoðunar hjá bandaríska dómsmálaráðuneytinu að ákæra feðgana einnig fyrir hatursglæp. 

Málið hefur vakið mikla athygli vestanhafs, sérstaklega í ljósi þess að McMichael-feðgarnir voru ekki handteknir fyrr en rúmum tveimur mánuðum eftir morðið. Þá hefur það einnig vakið athygli að þrír saksóknarar hafa sagt sig frá málinu vegna tengsla við Gregory McMichael, sem er fyrrverandi lögregluþjónn.

Wanda segir að handtaka feðganna hafi komið á óvart í ljósi tímans sem var liðinn. 

„Upphaflega, rétt eftir að þetta gerðist, var ég viss um að það yrði hylmt yfir þetta. Það benti allt í þá átt. Ef við hefðum ekki fundið réttu tengingarnar hefði ekki verið nein handtaka,“ segir Wanda. „Þeir komu að vettvangi þar sem maðurinn var dáinn. Og allir sem báru ábyrgð gátu farið heim til sín á meðan sonur minn var fluttur í líkhús.“

Wanda segir son sinn hafa verið auðmjúkan, hamingjusaman og kurteisan. „Hann elskaði lífið. Hann var ást. Það að þekkja Ahmaud var að elska Ahmaud,“ segir Wanda og bætir við að hann hafi dreymt um að verða farsæll rafvirki, eiginmaður og faðir. „Það var allt tekið frá honum.“

Wanda segir það hafa verið vonlausa baráttu að vekja athygli á dauða sonar síns. „Ég var kominn á þann stað að ég hélt að réttlætið myndi aldrei sigra.“ 

En eftir að myndbandi af skotárásinni var dreift á samfélagsmiðlum breyttist staða málsins fljótt. Myndbandið var tekið upp í bifreið sem keyrði á eftir Ahmaud og sýnir hann skokka í átt að jeppa fyrir framan hann. Hann reynir að hlaupa fram hjá bílnum og sést svo takast á við mann sem heldur á skotvopni. Í myndbandinu heyrast óljós hróp og þrjú skothljóð. 

Tveimur dögum eftir að myndbandið var birt voru McMichael-feðganir handteknir. 

„Ég hef ekki horft á myndbandið, en það er jákvætt að það kom í ljós,“ segir Wanda. Lögmaður fjölskyldunnar segir að fjölskyldan hefði ekki átt að þurfa á myndbandinu að halda til að handtaka færi fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert