Ítalir opna landamærin fyrir ferðamönnum í júní

Maður gengur fram hjá auglýsingaskilti þar sem kona heldur á …
Maður gengur fram hjá auglýsingaskilti þar sem kona heldur á andlitsgrímu í ítölsku fánalitunum. AFP

Ítalir ætla að opna landamæri sín í byrjun júní fyrir ferðamönnum og ekki verður þörf á fjórtán daga sóttkví. Stjórnvöld í landinu greindu frá þessu í morgun.

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, setti á miklar takmarkanir í landinu snemma í mars til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Meðal annars beitti hann útgöngubanni. Fyrir vikið hefur ferðamennska í landinu lagst af en Ítalía reiðir sig mjög á komu ferðamanna.

Alls hafa yfir 31.500 manns látist af völdum veirunnar á Ítalíu.

Giuseppe Conte.
Giuseppe Conte. AFP

Þrátt fyrir að Ítalir hafi aldrei formlega lokað landamærum sínum og þeir hafi leyft fólki að ferðast fram og til baka í vinnu eða af heilbrigðisástæðum var ferðamönnum meinað að koma til landsins og tveggja vikna sóttkví var við lýði fyrir þá sem ekki fengu undanþágu.

Frá og með þriðja júní mega ferðamenn koma aftur til landsins og sleppa þeir við sóttkví. Ítalir mega einnig ferðast á milli héraða. Stjórnvöld geta þó takmarkað ferðalög ef smitum fer fjölgandi á nýjan leik.

Veiran náði hápunkti sínum á Ítalíu í lok mars en stjórnvöld hafa verið hikandi við að opna landið á nýjan leik af ótta við aðra bylgju veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert