„Við erum allir á dauðadeild núna“

Uppþotið í Los Llanos er aðeins eitt margra slíkra sem …
Uppþotið í Los Llanos er aðeins eitt margra slíkra sem gerð hafa verið í fangelsum Suður-Ameríku undanfarnar vikur. AFP

Víctor Calderón sá son sinn síðast á lífi um miðjan mars, skömmu áður en samkomubanni vegna kórónuveirunnar var komið á í Venesúela. Sjö vikum síðar fékk hann að sjá ljósmynd af syni sínum látnum ásamt fjölda annarra fanga í Los Llanos-fangelsinu, en af ljósmyndinni að dæma hafði skotum verið látið rigna yfir fangana.

Miguel Calderón var einn að minnsta kosti 47 fanga sem létust í óeirðum í fangelsinu 1. maí síðastliðinn. „Ég vil koma fram svo heimurinn viti af þessu óréttlæti. Þeir slátruðu börnunum okkar,“ segir Victor.

Uppþotið í Los Llanos er aðeins eitt margra slíkra sem gerð hafa verið í fangelsum Suður-Ameríku undanfarnar vikur. Ekki er vitað nákvæmlega hvað olli uppreisn fanganna, en talið er líklegast að þeir hafi verið að krefjast bættra aðstæðna og öryggis á tímum kórónuveirufaraldursins.

Við neitum að deyja í fangelsi

Níu létust og fjöldi slasaðist í óeirðum í fangelsi í Lima í Perú í lok apríl í kjölfar þess að tveir fangar létust af völdum kórónuveirunnar. Nokkrum dögum síðar gerðu fangar í fangelsi í brasilísku borginni Manaus uppreisn vegna undirbúnings fjöldagrafa í fangelsinu vegna ótta um að fangelsisverðir kæmu með kórónuveiruna inn í fangelsið.

Mexíkósk yfirvöld hafa talsverðar áhyggjur af auknum óróleika innan veggja fangelsa landsins og í Kólumbíu hefur verið komið í veg fyrir tvo fangelsisflótta vegna kórónuveirunnar, en eftir annað tilvikið lágu 23 fangar í valnum. Í Argentínu hefur einnig borið á auknum ugg meðal fanga og hefur einn slíkur náðst á mynd með borða sem á stendur „Við neitum að deyja í fangelsi“.

Óeirðalögregla Venesúela daginn eftir að að minnsta kosti 47 fangar …
Óeirðalögregla Venesúela daginn eftir að að minnsta kosti 47 fangar létu lífið í Los Llanos-fangelsinu. AFP

En aftur að aðstæðum í Los Llanos-fangelsinu í Venesúela. Þar voru aðstæður skelfilegar áður en kórónuveirufaraldurinn brast á, en flestir fangar þurfa að reiða sig á að fjölskyldur þeirra komi með mat handa þeim þar sem yfirvöld standa illa undir því að fæða fanga landsins. Samkvæmt talskonu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch í Ameríku snýst þetta ekki um að fangarnir fái slæman mat í fangelsunum, heldur fái þeir bókstaflega engan mat. Ástandið hefur því versnað til muna eftir að heimsóknarbann vegna kórónuveirufaraldursins tók gildi og samkvæmt fréttastofu Reuters voru nokkrir fangar orðnir svo örvæntingarfullir að þeir lögðu sér kött til munns. „Við búum hér innan um skít og rusl,“ sagði Miguel Calderón föður sínum í hljóðskilaboðum ekki löngu áður en hann lést.

Covid er neistinn sem kveikir bálið

Ríkissaksóknari Venesúela hefur tilkynnt að forstjóri Los Llanos og fimm fangaverðir verði ákærðir vegna dauða fanganna sem létust í óeirðunum 1. maí, en ólíklegt þykir að blóðsúthellingarnir í Los Llanos þennan dag verði þær síðustu í Venesúela þar sem 1,7 milljónir sitja í fangelsum sem er langt umfram þann fjölda sem fangelsainnviðum landsins er ætlaður. 

Afbrotalögfræðingur í Ceará segir að kórónuveirufaraldurinn hafi gert yfirfull fangelsi landsins að púðurtunnum, en að áður en faraldurinn braust út hafi allt að 35 fangar verið hafðir saman í klefum ætluðum 10 til 12 manns og að allt að 30 fangar deildu jafnvel sama tannbursta. „Ástandið var þegar eldfimt. Covid er bara neistinn sem mun kveikja bálið.“

Fangi í Villavicencio-fangelsinu í Kólumbíu segir að ástandið þar sé síst skárra en í Venesúela. „Ég hélt að dauðarefsing væri ólögleg í Kólumbíu, en nú erum við allir á dauðadeild.“

Umfjöllun Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert