Ætla að deila með sér völdum í Afganistan

Afgönsk börn njóta útsýnisins yfir Kabúl, höfuðborg Afganistans.
Afgönsk börn njóta útsýnisins yfir Kabúl, höfuðborg Afganistans. AFP

Stríðandi fylkingar í Afganistan hafa skrifað undir samkomulag þess efnis að þær skuli deila völdum í landinu. Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins fagnar áfanganum og hvetur leiðtogana til að endurnýja áform sín um að koma á varanlegum friði í landinu.

Forseti Afganistan, Ashraf Ghani, og andstæðingur hans, Abdullah Abdullah, skrifuðu í dag undir samkomulag þess efnis að binda enda á illdeilur sínar.

Stjórnmálakrísan í Afganistan hefur varað mánuðum saman en nú ríður á að menn standi saman í baráttunni gegn kórónuveirunni. 

„Í miðjum kórónuveirufaraldri og áframhaldandi árásum talíbana á samlanda sína er mikilvægara en nokkru sinni að allir afganskir leiðtogar sameini krafta sína og vinni í sameiningu að því að ná endanlegum frið í Afganistan,“ segir Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.

Samkvæmt samkomulaginu mun Abdullah leiða friðarumleitanir við talíbana, sem hafa þegar skrifað undir samning við bandarísk stjórnvöld þess efnis að hægt verði að kalla erlendar hersveitir heim. Atlantshafsbandalagið hætti stríðsaðgerðum í Afganistan 2014 en er enn með viðveru í landinu til æfinga og ráðgjafar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert