Lést í varðhaldi 40 árum eftir komuna

AFP

Carlos Ernesto Escobar Mejia hafði búið í Bandaríkjunum í fjóra áratugi. Í síðustu viku varð hann fyrsta manneskjan til að deyja úr kórónuveirunni í banda­rískri landa­mæra­stöð. Fjölskylda hans segir að auðveldlega hafi verið hægt að koma í veg fyrir andlátið en hundruð hafa sýkst í fangabúðum bandarískra yfirvalda.

Escobar Mejia var 57 ára þegar hann lést en hann kom til Bandaríkjanna sem unglingur eftir að hafa flúið heimalandið, El Salvador, eftir að bróðir hans var drepinn í borgarastyrjöldinni sem geisaði þar frá 1979 til ársins 1992. 

Minningarathöfn var haldin um Escobar Mejia.
Minningarathöfn var haldin um Escobar Mejia. AFP

Mejia lést 6. maí í Otay Mesa-búðunum eftir að hafa, samkvæmt Guardian, kvartað yfir vanheilsu í langan tíma. Hann var í sérstökum áhættuhópi vegna COVID-19 þar sem hann var með sykursýki, of háan blóðþrýsting og búið að aflima hann í kjölfar slyss og sykursýki. 

„Hann var veikburða. Það hefði átt að láta hann lausan,“ segir systir hans, Rosa Escobar, í viðtali við Guardian. „Þeir synjuðu honum um að hitta lækni. Hann grátbað um læknisaðstoð. Hann var svo hræddur.“

Frá búðum ICE í Los Angeles.
Frá búðum ICE í Los Angeles. AFP

Hundruð fanga sem eru í búðum inn­flytj­enda og tolla­mála, Immigrati­on and Cu­stoms En­forcement (ICE) í Bandaríkjunum, eru smitaðir af kórónuveirunni. Lögmenn sem starfa að málefnum innflytjenda segja að aðstæður í þessum búðum séu ömurlegar þar sem þær eru yfirfullar og hreinlæti mjög ábótavant. Jafnframt hafa yfirvöld neitað að láta fólk laust úr haldi þrátt fyrir að það sé í áhættuhópi vegna COVID-19.

Escobar Mejia var yngstur fimm systkina og yfirgaf El Salvador árið 1980 ásamt systkinum og móður eftir að einn bróðir hans var drepinn í borgarastyrjöldinni. Hann bjó með móður sinni og Rosu í Los Angeles þangað til móðir hans lést árið 2014. Systur hans fengu bandarískan ríkisborgararétt um síðir en Escobar Mejia fékk aldrei græna kortið. 

AFP

„Bróður hans var slátrað í miðju stríðinu og hann vissi aldrei hvernig ætti að aðlagast,“ segir Joan Del Valle, sem starfar sem verjandi innflytjenda í Los Angeles en Escobar Mejia var skjólstæðingur hennar árum saman. Escobar Mejia var að hennar sögn háður fíkniefnum og komst ítrekað í kast við lögin fyrstu árin eftir komuna til Bandaríkjanna, þar á meðal vörslu fíkniefna og akstur undir áhrifum vímuefna. 

Del Valle segir að ekkert hafi verið litið til þess að hann hafi framið brotin fyrir áratugum síðan því sakaferillinn fylgdi honum inn í dómsali sem fara með málefni innflytjenda og honum ítrekað hótað brottvísun úr landi vegna þeirra.

Að sögn Del Valle var hann mjög ábyrgur þau átta ár sem hún fór með hans mál og mætti alltaf stundvíslega og skrópaði aldrei í réttarsal þegar tekist var á um rétt hans til veru í landinu.  

AFP

Escobar Mejia starfaði að hennar sögn við ýmiss konar verkamannastörf í gegnum tíðina, svo sem við þrif og í byggingariðnaði. Eftir að annar fóturinn var tekinn af honum var hann óvinnufær en að sögn systur hans reyndi hann að hjálpa til heima en eitt af því sem hann var ófær um var að keyra bíl. Þegar vinur hans var að skutla honum snemma í janúar var bifreiðin stöðvuð af laganna vörðum og hann færður í Otay Mesa-búðirnar skammt frá San Diego. 

Rosa systir hans segir að hann hafi óttast mjög um framhaldið og að vera vísað úr landi. Hann hafi ekki átt neina fjölskyldu í El Salvador og vonlaust fyrir hann að sjá sér farborða þar. 

AFP

Otay Mesa-búðirnar eru reknar af einkafyrirtækinu CoreCivic sem sérhæfir sig í rekstri fangelsa. Þar hafi verið erfitt að fá lyf við sykursýkinni segir Del Valle auk þess sem maturinn hafi verið lélegur og alls ekki góður fyrir sykursjúka. Þar sem starfsleyfi Del Valle sem lögmanns er í Los Angeles gat hún ekki starfað fyrir hann í San Diego.

Fljótlega eftir að COVID-19 greindist í Bandaríkjunum varð ástandið mjög erfitt í Otay Mesa en ítrekað hefur verið kvartað undan skorti á heilbrigðisþjónustu þar. 

Einn þeirra sem Guardian ræddi við segir að þrátt fyrir faraldurinn hafi ICE sífellt fjölgað föngum í búðunum og vonlaust hafi verið að halda fjarlægð á milli manna. Eins hafi beiðni þeirra sem óttuðust að vera komnir með COVID-19 um læknisaðstoð verið hunsuð. 

Búðir ICE í El Paso.
Búðir ICE í El Paso. AFP

Á mánudaginn voru 144 staðfest smit í Otay Mesa en alls eru þar 630 flóttamenn og hælisleitendur. Af þeim var búið að taka sýnir úr 181 daginn sem Escobar Mejia lést. 

Amanda Gilchrist, talskona CoreCivic, segir að fyrirtækið beri ekki ábyrgð á læknisaðstoð í búðunum. Hún segir að þeir sem hafi viljað hafi getað fengið grímur fyrir andlitið og eins hafi þeim sem eru smitaðir verið haldið í sérhúsnæði til að forðast smit. 

AFP

Samkvæmt frétt New York Times voru 629 fangar í Otay Mesa í byrjun maí og hvergi annars staðar í Bandaríkjunum hafa jafn margir sýkst af veirunni í búðum innflytjenda. Hætt var að taka við fólki í búðirnar snemma í apríl.

Fyrir viku voru staðfest smit í búðum ICE orðin 788 talsins. 8. maí voru alls 29.675 í haldi í búðum ICE í Bandaríkjunum. Af þeim höfðu aðeins 1.593 verið sendir í sýnatöku. Tæplega 50% þeirra sem höfðu farið í sýnatöku voru smitaðir af COVID-19 og þykir það benda til þess að miklu fleiri séu smitaðir en tölurnar segja til um.

Guardian

Pro Publica

New York Times

Bay State Banner

ABC

Mótmælendur við Otay Mesa-búðirnar þar sem Carlos Ernesto Escobar Mejia …
Mótmælendur við Otay Mesa-búðirnar þar sem Carlos Ernesto Escobar Mejia var minnst 9. maí. AFP
mbl.is